Grindvíkingar sóttu öruggan sigur á heimavelli í kvöld, er þeir fengu Breiðablik í heimsókn í 5. umferð Subway-deildar karla. Lokatölur leiks: 100-84 fyrir heimamenn. Eftir leikinn halda Grindvíkingar áfram að vera ósigraðir á heimavelli, en Blikum hefur ekki ennþá tekist að vinna á útivelli í vetur. Núna sitja Grindvíkingar í toppsæti deildarinnar með 10 stig eins og er, en Þór Þorlákshöfn og Keflavík eiga leik til góða og eru hvort tveggja með 8 stig í 2. og 3. sæti. Breiðablik er þá í 9. sæti, með 2 stig ásámt ÍR og Vestra.

Gangur leiks

Grindavík fór mjög vel af stað í þessum leik og náði að stýra tempóinu strax í fyrsta leikhluta. Blikar náðu að setja nokkur sniðskot í upphafi leikhluta, en um leið og Grindvíkingar fóru að hitta úr þristunum virtist vera að Blikarnir misstu tökin. Breiðablik hitti illa úr þriggja stiga skotum og Grindavík vel, eða 5 þriggja stiga körfur á móti einum þrist Blika. Grindavík fór í 2. leikhluta með 11 stiga forystu.

Sömu sögu er að segja um 2. leikhluta og juku Grindvíkingar forystuna. Um tíma voru þeir 18 stigum yfir, en Blikarnir náðu þó að forðast það lenda undir með 20. Grindavík fór svo í hálfleikinn með 15 stiga forystu, 59-44.

Eftir að hafa lent undir með 10 snemma náðu Blikarnir aldrei að komast aftur í leikinn. Grindavík náði þegar mest var 27 stiga forystu í 3. leikhluta og þá var einfaldlega ekki aftur snúið fyrir Blikana. Blikar náðu svo áhlaupi í 3. eftir að hafa lent svo mikið undir og fóru inn í 4. undir með 15 stigum.

Í 4. leikhluta sýndu Grindvíkingar gríðarlega þolinmæði í sókninni, sem stýrð var af Naor Sharabani, sem lék agað og náði að hægja á leiknum, sem er erfitt fyrir Breiðablik; lið sem vill keyra upp hraðann í leikjum. Grindvíkingar sýndu styrkleika sinn í kvöld og héldu góðum aga sóknar- og varnarlega og sigldu sigrinum heim, 100-84.

Tölfræðin lýgur ekki

Grindavík hitti afar vel úr skotum sínum í kvöld og var með 40% þriggja stiga nýtingu (14/35) á móti 26% nýtingu andstæðinganna (10/38). Einnig var boltahreyfing Grindvíkinga til fyrirmyndar og voru þeir með 31 stoðsendingar af 38 hittum skotum. Þar voru Naor Sharabani og Ólafur Ólafsson fremstir í flokki; Sharabani með 10 stoðsendingar og Ólafur með 9.

Atkvæðamestu menn

Ivan Aurrecoechea hélt áfram sínum yfirburðum og var með 28 stig, 7 fráköst, 3 stolna bolta og samtals 23 framlagsstig. Þó var maður leiksins Grindvíkingurinn Kristófer Breki Gylfason, sem átti sannkallaðan stórleik: 26 stig og 8 fráköst og 6 þriggjastigakörfur, með 31 framlagsstig.

Blikameginn var Sinisa Bilic bestur fyrir gestina, með 20 stig og 10 fráköst og 24 framlagspunkta. Næstframlagshæsti Blikinn var svo Everidge Richardson, í endurkomu sinni eftir tveggja leikja fjarveru: 21 stig, 7 fráköst og 15 framlagsstig.

Kjarninn

Það er gott fyrir Breiðablik að Everidge Richardson sé aftur mættur til leiks, og mun hann sennilega ná að feta sig betur í næstu leikjum. Miðað við gengi Grindvíkinga hingað til er ekki yfir miklu að kvarta hjá Blikunum eftir svona leik. HS-Orkuvöllurinn er erfiður útivöllur og Grindvíkingar ósigraðir þar. Grindvíkingar ganga sáttir heim og tylla sér á toppnum um stund. Þetta var versta frammistaða Blikanna hingað til í deildinni, og skýrist það af illu gengi þeirra utan af velli. Grindvíkingar vörðust vel og þá gat Breiðablik lítið gert. Blikarnir geta orðið virkilega sterkir ef önnur lið ná ekki að verjast hraðaupphlaupum þeirra og þriggja stiga skotum, og ljóst að þeir ætli að halda sér uppi í úrvalsdeild. Þó verða þeir að fara að vinna leiki til þess að sýna það.

Hvað svo?

Blikarnir fá Þór Þorlákshöfn í heimsókn í næsta leik, fimmtudaginn 11. nóvember. Everidge Richardson á ennþá eftir að ná sér á skrið eftir fjarveru sína, og vonast Blikarnir til þess að hann nái að skila góðri frammistöðu heima í næstu viku. Grindvíkingar fá 12 daga frí eftir leik kvöldsins, en þeir fara til Ísafjarðar að leika á móti Vestra þann 18. nóvember, þar sem þeir vonast til að halda sigurför sinni áfram.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Oddur Ólafs