Njarðvík komst í kvöld á sigurbraut á nýjan leik með 110-105 sigri á Blikum í Subwaydeild karla. Nýliðarnir úr Kópavogi máttu því fella sig við enn einn ósigurinn í spennuleik.

Eitthvað segir undirrituðum að þegar þetta loksins dettur hjá Blikum þá verði fjandinn laus. Nýliðarnir eru að fóta sig en í svona jafnri deild þá er stóra spurning hvert svirúmið sé til þess að missa svona tæpa leiki frá sér. Eftir sigur Vestra í kvöld eru Blikar í fallsæti en þeir eiga risaslag í næstu umferð gegn hinu botnliðinu Þór Akureyri.

Það var ekki fyrir skort á vilja sem Blikar töpuðu þessum, Njarðvíkingar náðu góðum tökum á leiknum í þriðja leikhluta og slitu sig frá og náðu 12 stiga mun. Árni Elmar Hrafnsson dúndraði niður þristum sem óður væri til að færa Blika nær en það var svo vel tímasettur stolinn bolti hjá Grikkjanum Fotis Lampropoulus sem slökkti endanlega vonir Blika á að fá eitthvað úr leik kvöldsins.

Gangurinn
Blikar leiddu 25-31 eftir fyrsta leikhluta, Nico með 3-3 í þristum hjá Njarðvík en Bilic 9 í liði Blika. Sigurður Pétursson kom með mikla baráttu inn af Blikabekknum í kvöld og skoraði 6 stig á þeim 19 mínútum sem hann spilaði.
Í öðrum leikhluta rufu Blikar aftur 30 stiga múrinn og leiddu 56-63 í hálfleik. Ætli Benedikt þjálfari Njarðvíkinga hafi ekki haft sitt að segja inni í klefa um varnarleikinn fyrstu 20 mínúturnar hjá heimamönnum. Bilic með 13 en Everage og Danero báðir með 10 hjá Blikum í leikhléi en Nico 17 og Maciej 12 hjá Njarðvík.


Vörn heimamanna var umtalsvert betri í þriðja leikhluta og héldu Njarðvíkingar gestunum í 17 stigum í þriðja og leiddu 86-80 að honum loknum. Í fjórða voru Blikar stöðugt að færa sig nærri þökk sé Árna Elmari sem var 6-8 í þristum í kvöld. Þegar 30 sekúndur lifðu leiks voru Blikar í sókn en þá gerði Fotis út um leikinn með stolnum bolta og í kjölfarið fylgdi U-villa á gestina og þar með var sagan öll.

Atkvæðamestir

Nico og Mario báðir með 23 stig hjá Njarðvík og Veigar Páll með nokkrar glimrandi rispur í leiknum og 14 stig. Árni Elmar og Sigurður Péturs komu flottir af bekk Blika í kvöld en stigahæstur gestanna var Bilic með 21 stig og Danero með 18.

Kjarninn

Það býr mikið í nýliðum Blika og þeir hafa verið að koma liðum í ansi mikla klípu upp á síðkastið þó það hafi ekki gefið stig. Eftirfarandi er byggt á tilfinningu en Blikar eru að fara að komast yfir þennan hjall og ná stigum, það er eitthvað kraumandi þarna sem bíður þess að springa út. Njarðvíkingar að sama skapi komnir á sigurbraut á nýjan leik eftir þrjú deildartöp í röð. Senn líður að því að Logi Gunnarsson mæti á parketið aftur og þá styttist með hverjum deginum í Hauk Helga Pálsson.

Næsti leikur Blika er gegn Þór Akureyri en Njarðvíkingar fá Vestra í heimsókn.

Myndasafn
Tölfræði leiksins