Leikur kvöldsins í MG-höllinni var fyrirfram mjög athyglisverður. Gestirnir af Króknum sátu fyrir leik í efsta sæti, ásamt ýmsum fleiri liðum reyndar, og mikill áhugi á því að halda góðu gengi áfram. Það mátti jafnvel greina í loftinu litlar og lágværar skagfirskar raddir, ef vel var lagt við hlustir, segja; ,,Er komið að okkur…loksins?“

Stjörnumenn hafa aftur á móti þurft að þola illt gengi, aðeins sigrað 2 leiki en tapað 4. Síðasta tap var átakanlega súrt á móti vængbrotnu KR-liði. Garðbæingar þurftu því sárlega á sigri að halda.

Kúlan: Í Kúlunni heyrist aldrei slíku vant tónlist…reyndar af versta tagi, rappsull í bland við söngleikjatónlist. Það er auðvitað í engum takti við skaplyndi herra Garðabæjar og Formannsins og merkir að enn verður bið á upprisu Stjörnunnar. Gestirnir hafa sigur 77-85.

Byrjunarlið
Stjarnan: Hilmar, Gabrovsek, Turner, Hopkins, Tommi
Tindastóll: Arnar, Massamba, Badmus, Bess, Sigurður

Gangur leiksins
Það var ágætis ára yfir báðum liðum í byrjun leiks en gestirnir stungu nefinu á undan 5-10 eftir þrist frá Massamba. Þá tóku heimamenn á góðan sprett, settu nokkra þrista sem hafa verið sjaldséðir hjá liðinu að undanförnu og leiddu 26-14 þegar skammt var eftir af fyrsta fjórðungi. Þrátt fyrir 2 þrista frá gestunum höfðu heimamenn 31-20 forskot eftir einn. Turner var áberandi fyrir sína menn og svo kom Natvélin sterk inn og skilaði góðu verki.

Stólarnir mættu ákveðnir inn á völlinn í upphafi annars leikhluta og settu 7 stig í röð. Hopkins henti þriggja stiga plástri á sárið og Tommi græddi það að mestu með öðrum þristi skömmu síðar. Stjörnumenn voru með ágæt tök á leiknum næstu mínútur og Baldur tók leikhlé í stöðunni 46-35 þegar 2:33 voru til hlés. Það hafði jákvæð áhrif og gestirnir tóku á 0-9 sprett fram að hálfleik, aðeins tveggja stiga munur 46-44. Arnar Guðjóns var vafalaust ósáttur með þennan lokakafla en gat lítið að gert úr fyrirmennastúkunni.

Hlynur Bærings stýrði liði Stjörnunnar ásamt Dino Stipcic í fjarveru Arnars og Inga í kvöld og þeir lögðu vafalaust áherslu á varnarleik í hálfleiksræðunni. Það hefur hins vegar Baldur augljóslega gert líka enda skoruðu liðin 2 stig hvort á fyrri 5 mínútum þriðja leikhluta! Vafalaust má líka segja að sóknarleikur liðanna hafi verið dapur og hittnin afleit, en það voru heimamenn sem vöknuðu fyrr úr varnardvalanum. Turner læddi niður stigum fyrir Stjörnuna og Natvélin var einnig að setja góð stig undir körfunni. Að leikhlutanum loknum leiddu heimamenn 62-54, heimamenn með 16 stig gegn aðeins 10 stigum gestanna í leikhlutanum!

Enn syrti í álinn fyrir Stólana í byrjun fjórða og Stjarnan setti fyrstu 5 stig leikhlutans. Raggi Nat skoraði svo af harðfylgi undir körfunni, fékk víti í kaupbæti sem hann nýtti og kom sínum mönnum í 72-56. Þá voru 7 mínútur eftir af leiknum, nægur tími en tilfinningin var ekki góð fyrir hönd gestanna. Skömmu síðar var munurinn kominn í 20 stig eftir einn eina körfuna frá Ragga. Þrátt fyrir ágætar körfur gestanna og nokkur stopp varnarlega undir lokin voru Stólarnir talsvert frá því að gera leik úr þessu og verulega góður og kærkominn sigur Stjörnunnar staðreynd, lokatölur 87-73.

Menn leiksins
Það er morgunljóst að Raggi Nat var maður þessa leiks. Hann skilaði 13 stigum, tók 8 fráköst og spilaði hörkuvel varnarlega. Turner var vissulega líka mjög góður, setti 23 stig og tók 9 fráköst og það var fínt jafnvægi í hans leik í kvöld.

Kjarninn
Stólarnir virkuðu andlausir og áhugalausir mestan part leiksins. Eins og Baldur nefndi í örstuttu viðtali eftir leik kom hans lið flatt til leiks og var einfaldlega lélegt fyrir utan smá kafla í öðrum leikhluta þar sem þeir minnkuðu muninn í 2 stig fyrir hlé. Bess var áberandi slakur í annars slöku liði og undirritaður vonar innilega hans vegna að ekkert NBA-lið hafi verið að skoða hann í kvöld! En svona er þetta í boltanum, lið vinna ekki alla leiki og Baldur var greinilega tilbúinn til að gleyma þessum leik strax og horfa fram á veginn. 5-2 er bara allt í lagi í þessari sterku deild.

Heimamenn höfðu kannski í einhverjum skilningi að meiru að keppa í kvöld. 2-5 er nefnilega alveg andstæðan við 5-2, og liðið forðaði sér frá þeirri stöðu með sigri í kvöld og eru 3-4. Það var afar ánægjulegt að sjá Ragga spila svona vel en hann hefur ekki skilað jafn miklu fyrir sitt lið nokkuð lengi. Vörnin var á löngum köflum afar góð, fínn andi í liðinu, erlendir leikmenn liðsins litu betur út en að undanförnu og aðrir leikmenn liðsins skiluðu því sem þurfti til viðbótar. Kærkominn sigur Stjörnumanna og benda má á að Hlynur er enn meiddur en gerði greinilega sitthvað gagnlegt úr þjálfarasætinu í kvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)