Stjarnan lagði Tindastól fyrr í kvöld í 7. umferð Subway deildar karla, 87-73.

Eftir leikinn er Stjarnan í 6. sæti deildarinnar með 6 stig, þrjá sigra og fjögur töp á meðan að Tindastóll er í 4. sætinu með 10 stig, fimm sigra og tvö töp það sem af er tímabili.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Ragnar Ágúst Nathanaelsson leikmann Stjörnunnar eftir leik í MGH. Ragnar átti líklega sinn besta leik til þessa á tímabilinu í kvöld, skilaði 13 stigum og 8 fráköstum á rúmum 17 mínútum spiluðum.

Þetta var náttúrulega bara frábær sigur hjá ykkur og væntanlega mjög kærkominn…?

Já, heldur betur! Við höfum verið í ákveðinni lægð núna og vorum og erum eiginlega enn mjög svekktir eftir síðasta leik…okkur leið eins og við höfðum kastað honum frá okkur…

Það var mjööög súrt tap!

Já mjög! Þannig að við vorum bara staðráðnir í því að fara inn í þetta landsleikjahlé með sigur, skilja allt eftir á vellinum og það myndi vonandi skila okkur sigri. Og sýna sjálfum okkur líka hvað við erum góðir, það er eitthvað sem við höfum kannski þurft á að halda svolítið. Þetta var bara mjög mikilvægt fyrir okkur.

Einmitt, og það er bara allt annað að vera 3-4 en 2-5…

Já! Það er bara himinn og haf þar á milli…

Manni fannst þetta vera svolítið ,,do or die-leikur“ fyrir liðið…

Já, og eins bara að fara með sigur inn í hléð, það er betra að fara inn í  landsleikjahlé með sigur frekar en að fara inn í hlé með tapi og vera að velta sér upp úr því hvað maður hefði getað gert betur og slíkt rugl…

…akkúrat, og ofan í þetta sára tap gegn KR líka. En mér fannst það kannski helst varnarleikurinn sem skóp sigurinn í kvöld og ekki síst í þriðja leikhluta þar sem Stólarnir settu bara 10 stig á ykkur…það var kannski það sem lagði grunninn að sigrinum?

Já, við viljum vera varnarlið, við lögðum upp með það fyrir tímabilið, að spila vörn og taka fráköst. Það hefur vantað svolítið upp á það hjá okkur, liðin hafa verið að fá of mikið af auðveldum körfum og við ákváðum að taka okkur saman í andlitinu fyrir þennan leik, enda eru Stólarnir með frábæra skorara í sínu liði og ef við hefðum ekki spilað vörn á móti þeim hefðu þeir valtað yfir okkur í dag.

Varðandi þig persónulega, það var mjög gaman að sjá þig koma svona rífandi góðan inn í þennan leik, þetta hefur verið kannski frekar brösugt gengi hjá þér persónulega í svolítinn tíma, lítið fengið að spila og lítið gengið…ertu ekki býsna ánægður og feginn að ná að sýna loks þína getu, þú varst frábær varnarlega, skilaðir 13 stigum og frákastaðir vel…

Jújú, ég náttúrulega veit vel að ég kann að spila körfubolta, ég hætti ekkert allt í einu að kunna að spila…fyrir tímabilið töluðum við Arnar saman og það var alveg skýrt hvert mitt hlutverk væri, ég var t.d. ekkert að fara að koma inn á á móti litlu liðunum eins og t.d. KR, þeir eru næstum 5 bara úti og þá er minn styrkleiki farinn, þegar ég er upp á þriggja stiga línu er ég ekki að passa körfuna og taka fráköst. Það er svo á móti liðum eins og Tindastól sem eru stórir sem ég þarf að vera tilbúinn til að koma inn á og skila einhverju til liðsins og sýna að í þessum leikjum á ég að fá mínútur, ekki síst núna þegar Hlynur er enn meiddur. Það eru stórir skór til að fylla upp í en ég held að ég hafi gert það með prýði í dag allaveganna…

Heldur betur! Og þegar það hentar að þú spilir að þá er vonandi að það verði framhald á svona frammistöðu…

Já! Og sýna að ég á heima í þessu landsliði…fólk er víst ekkert hrikalega sátt með að ég sé þar! Ég þarf að sýna þessum sérfræðingum að ég á heima í þessu liði!

Nákvæmlega! Og það gekk allaveganna vel í dag!