Ísland lagði heimamenn í Hollandi í kvöld í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2023, 77-79. Eftir leikinn er Ísland því efst í riðlinum ásamt Russlandi sem vann Ítalíu fyrr í dag í hinum leik riðilsins.

Gangur leiks

Íslendingar mættu nokkuð sprækir til leiks í Topsportcentrum í Almere í kvöld, náðu að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum og 4 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 19-23. Mikið jafnræði var svo með liðunum í öðrum leikhlutanum. Holland nær þó sinni mestu forystu í fyrri hálfleiknum, 5 stigum, en Ísland lokar gatinu aftur og eru 3 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 41-44.

Atkvæðamestur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Martin Hermannsson með 13 stig og þá bætti Elvar Már Friðriksson við 12 stigum.

Með góðu 3-13 áhlaupi nær Ísland að bæta enn frekar við forystu sína á upphafsmínútum seinni hálfleiksins. Eru mest 13 stigum yfir í þriðja leikhlutanum. Hollendingar ná þó að mestu að vinna það niður fyrir lok fjórðungsins sem endar 58-62. Hollendingar ná svo að jafna leikinn og komast yfir í byrjun fjórða leikhlutans. Ísland svarar því vel og nær aftur að komast nokkrum stigum framúr. Með stórum þristum frá Jóni Axel Guðmundssyni og Martin þegar tæpar tvær mínútur eru eftir komast þeir svo 9 stigum yfir, 68-77. Þökk sé nokkrum töpuðum boltum Íslands undir lokin ná Hollendingar að halda þessu spennandi út leikinn, sem endar með 2 stiga 77-79.

Kjarninn

Íslendingar virtust vera með þennan leik allan tímann. Þurftu þó vel að hafa fyrir því í seinni hálfleiknum, þar sem að Hollendingar virtust grípa flest tækifæri sem þeim voru gefin til þess að halda leiknum jöfnum. Stóðust öll próf og heilt yfir var þetta flott frammistaða hjá liðinu. Martin Hermannsson að sjálfsögðu stórkostlegur í þessari endurkomu sinni í liðið, en þetta var þó algjör liðssigur. Þar sem Elvar Már, Ægir Þór, Kristófer, Tryggvi Snær, Jón Axel og fleiri voru allir að skila sínu verki vel.

Tölfræðin lýgur ekki

Ísland vann frákastabaráttu leiksins þrátt fyrir að vera minna liðið í sentimetrum, 44 gegn 29. Segir ýmislegt um þá baráttu og dugnað sem liðið sýndi.

Atkvæðamestir

Martin var atkvæðamestur fyrir Ísland í dag með 27 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson kom honum næstur með 15 stigum, 4 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Nú ferðast íslenska liðið til Sankti Péturborgar þar sem þeir mæta heimamönnum í Rússlandi komandi mánudag 29. nóvember, en þeir unnu í dag leik sinn gegn Ítalíu í hinum leik riðilsins, 92-78.

Tölfræði leiks

Myndasafn