Skallgrímur mæti í MVA höllina á Egilsstöðum þennan mánudaginn í frestaðan leik frá 22. október. Staða liðana ólík í deildinni fyrir leikinn, Skallagrímur í 9. sætinu með 1 sigur og 4 töp (1-4) meðan Höttur sátu einir á toppi deildarinnar með 6 sigra (6-0)

Staða liðanna í deildinni gaf þó litla vísbendingu um hvernig þessi leikur átti eftir að spilast. Höttur var betri aðilinn í fyrri hálfleik, leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-18 og þegar í hálfleik var komið höfðu þeir enn bætt við forystuna og voru 12 stigum á undan, 46-34.

Gestirnir úr Borgarnesi ná þó að bíta frá sér í upphafi seinni hálfleiksins og laga stöðuna töluvert, munurinn 7 stig eftir þrjá leikhluta, 69-62. Skallagrímur náði í nokkur skipti að komast einni körfu frá Hetti í fjórða leikhlutanum, tveimur stigum snemma í leikhlutanum, 69-67, og svo aftur á lokamínútunum, 85-82 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Nær komast þeir þó ekki og heimamenn sigla að lokum 5 stiga sigur í höfn, 92-87.

Atkvæðamestur fyrir Hött í leiknum var Juan Luis Navarro með 13 stig og 18 fráköst. Þá bætti Arturo Fernandez Rodriguez við 25 stigum og 7 fráköstum.

Fyrir gestina var Bryan Anthony Battle atkvæðamestur með 41 stig, 8 fráköst, 7 stoðsendingar og Simun Kovac var með 12 stig og 14 fráköst.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Pétur Guðmundsson