Héraðsbúar gerðu góða ferð í Uppsveitir Suðurlands í dag þegar þeir heimsóttu Hrunamenn  í íþróttahúsið á Flúðum. Liðin leika í 1. deild karla þar sem Höttur missti toppsætið til Hauka í síðustu umferð. Hrunamenn eru í 6. sætinu.

Einar Árni og Viðar, þjálfarar Hattar, höfðu augljóslega óskað eftir því við leikmenn sína að þeir léku hraðar og stuttar sóknir. Þeir skutu boltanum á körfuna um leið og færi gafst. Vörnina stóðu þeir hins vegar illa í blábyrjun leiksins, svo illa að Hrunamenn náðu að leika boltanum á milli sín þar til einn þeirra gat lagt hann ofan í körfuna af stuttu færi algjörlega án truflunar varnarmanna Hattar. Þegar þjálfarar Hattar höfðu horft upp á þetta tvisvar báðu þeir um leikhlé. Þar messaði Viðar hátt og duglega yfir sínum mönnum. Þeir komu miklu harðari af sér til baka inn á völlinn og tóku fast á heimamönnum. Hrunamennirnir svöruðu í sömu mynt og dómararnir leyfðu þónokkra hörku þannig að hraður leikurinn fékk þannig að fljóta vel og varð hin ágætasta skemmtun. Það eina sem vantaði til að fullkomna skemmtunina var fleiri áhorfendur á pallana. Aðsóknin var léleg á Flúðum í þetta skiptið.

Í öðrum leikhluta náðu Hrunamenn áhlaupi. Leikstjórnandinn Clayton Ladine var allt í öllu í sóknarleik þeirra, ekki bara í þessum leikhluta heldur allan leikinn. Hann hitti vel fyrir utan, fann leiðir í gegnum vörnina upp á eigin spýtur og spilaði ágæta vörn. Þegar líða tók á 2. fjórðung var farið að draga nokkuð af honum. Skot hans tóku að lenda framan hringnum, vítin hættu að fara ofan í og hann fór við og við að spara kraftana í vörninni. Þegar Árni Þór, þjálfari Hrunamanna, tók leikhlé í stöðunni 43-43 hefur hugmyndin sjálfsagt verið sú að gefa Clayton möguleika á að setjast niður og hvíla sig í eina mínútu.

Þriðji fjórðungurinn var jafn framan af en svo náðu Hattarmenn undirtökunum. Hrunamenn komust snemma í skotrétt en þeir nýttu sér hann illa. Vítanýting þeirra var afleit. Eins og það er gaman að sjá þegar einn leikmaður liðs finnur fjölina sína og leikur þannig að allt virðist ganga upp hjá honum getur það stundum verið erfitt fyrir lið þegar þannig staða kemur upp. Velgengni Clayton Ladine á vellinum virtist verða til þess að sumir liðsfélaga hans leituðu alltaf að honum í stað þess að ráðast sjálfir á körfuna eða skjóta boltanum. Á þessum kafla leiksins hefði þurft meira framlag frá fleiri liðsmönnum en bara Clayton. Karlo Lebo og Yngvi Freyr Óskarsson voru reyndar ekki feimnir við að láta til sín taka. Þeir stóðu sig báðir með ágætum í leiknum. Á sama tíma kom framlag frá öllum leikmönnum Hattar. Fimm leikmenn höfðu skorað meira en 10 stig og allir skutu þeir óhikað á körfuna. Staðan hafði verið jöfn snemma í fjórðungnum en undir lokin jókst forysta gestanna hratt og mest munaði 19 stigum á liðunum.

Í síðasta fjórðungi hægði Höttur á ferðinni en hélt Hrunamönnum þó alltaf vel fyrir aftan sig. Einar og Viðar sættu sig ekki við þannig leik sinna manna. Þeir tóku leikhlé í stöðunni 85-100 þar sem menn fengu aftur að heyra það frá Viðari. Árni Þór náði í leiðinni að skerpa á varnarleik sinna manna sem var oft á tíðum öfugur í lokafjórðungnum.

Hrunamenn höfðu Timothy Guers í strangri gæslu í leiknum. Hann náði samt að skora 13 stig og gerði vel í að spila upp á liðsfélgana, sendi m.a. 8 stoðsendingar. Adam Eiður Ásgeirsson var stigahæstur Hattarmanna með 29 stig. Á sóknarhelmingi átti hann stórleik. Matej Karlovic var mjög öflugur fyrir Hött. Hann skoraði 18 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Hann hefði sjálfsagt skilað enn hærra framlagi hefði hann ekki komið sér í villuvandræði snemma í leiknum og þurft af þeim sökum að sitja lengi á bekknum og spilaði svo lokafjórðunginn á 4 villum. David Ramos skoraði 17 stig.

Clayton Ladine spilaði frábærlega fyrir Hrunamenn. Hann skoraði 39 stig og sendi 8 stoðsendingar. Hann spilar af mikilli ákefð og þyrfti á fleiri pásum að halda meðan á leik stendur sérstaklega þegar aðeins tæpir tveir sólarhringar eru á milli leikja eins og gerðist núna. Þreyta kemur á köflum niður á varnarleik hans og sjálfsagt má vítanýtingin 2/6 að einhverju leyti skrifast á sama reikning. Að stjórna álaginu á bestu leikmennina er vandaverk fyrir þjálfara, sérstaklega þegar þeir leika eins vel og Clayton Ladine gerði í dag gegn Hetti. Yngvi Freyr og Karlo skoruðu 18 og 17 stig og tóku 8 og 9 fráköst. Orri kom með orku af bekknum og skoraði 8 stig og Eyþór Orri komst ágætlega frá sínu með 4 stoðsendingar, 3 stolna bolta í svæðisvörninni og 10 skoruð stig.

Það færir ungu liði Hrunamanna mikilvæga reynslu að fá að kljást við eins vel þjálfað og gott körfuboltalið og Hött og byr í seglin að upplifa jafnan og skemmtilegan leik gegn því svo lengi framan af leik. Það er engin skömm að tapa fyrir Hetti. Höttur er besta liðið sem komið hefur á Flúðir á leiktíðinni. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gréta Gísladóttir)

Umfjöllun, viðtal / Karl Hallgrímsson