Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍR samkvæmt tilkynningu félagsins rétt í þessu.

Friðrik Ingi er gríðarlega reynslumikill þjálfari sem hóf feril sinn hjá Njarðvík í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar, en síðan þá hefur hann þjálfað nokkur úrvalsdeildarfélög, sem og verið a landsliðsþjálfari.

Tilkynningu ÍR er í heild hægt að lesa hér fyrir neðan, en samkvæmt formanni deildarinnar er félagið spennt að fá Friðrik Inga til starfa.

Tilkynning:

Friðrik Ingi Rúnarsson ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR.


Friðrik þarf vart að kynna fyrir körfuknattleiksáhugafólki en hann hóf þjálfaraferilinn árið 1990 hjá Njarðvík. Síðast var hann aðalþjálfari hjá Þór Þorlákshöfn tímabilið 2019-2020 en árið 2020 tók hann stöðu aðstoðarþjálfara hjá uppeldisfélagi sínu Njarðvík. Auk þessa var Friðrik Ingi landsliðsþjálfari A landslið karla um nokkurra ára skeið og hefur einnig þjálfað yngri landslið Íslands. Í gegnum tíðina hefur hann verið afar sigursæll þjálfari og hefur hann unnið þrjá Íslandsmeistaratitla, fjóra bikarmeistaratitla ásamt því að vera valinn þjálfari ársins þrisvar sinnum. Stjórn KKD ÍR ásamt Friðriki Inga hafa einnig komist að samkomulagi við Ísak Mána Wíum og Sveinbjörn Claessen um að þeir taki að sér stöðu aðstoðarþjálfara liðsins.


Við bjóðum Friðrik Inga hjartanlega velkomin í Breiðholtið


Steinar Þór Guðjónsson Formaður KKD ÍR:
„Síðustu daga höfum við Friðrik rætt mikið saman, við erum virkilega spennt að fá hann til starfa hjá félaginu. Hann er hafsjór af reynslu og þekkingu í þessum bransa og erum við fullviss um að það muni nýtast félaginu til frambúðar. Nú þýðir ekkert annað en halda áfram í þeirri baráttu sem við sem félag erum í, sjáumst í TM-Hellinum og áfram ÍR “