Eftir glæsilegan sigur á Hollandi í gærkvöldi heldur íslenska landsliðið nú til Sankti Pétursborgar í Rússlandi þar sem liðið mun á mánudagskvöldið mæta heimamönnum í öðrum leik undankeppni HM2023.

Leikurinn úti í Rússlandi átti hinsvegar ekki að vera þar. Samkvæmt skipulagi átti hann að fara fram á Íslandi, en vegna aðstöðuleysis eiga íslensk körfuknattleikslandslið engan heimavöll sem samþykktur er af FIBA, Alþjóða körfuknattleikssambandinu.

Þetta bendir formaður KKÍ Hannes Jónsson á í færslu sinni á samfélagsmiðlum í morgun, en í henni veltir hann fyrir sér hvort að í nýjum stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem setið hefur síðastliðin ár verði eitthvað minnst á úrbætur í málefnum landsliðsins.