Ísland tapaði fyrir heimamönnum í Rússlandi í kvöld í undankeppni HM 2023, 89-65.

Eftir leikinn er Ísland með einn sigur og eitt tap í riðlinum, en næsti leikur þeirra er heima gegn Ítalíu þann 24. febrúar 2022.

Munar um minna

Rétt um háltíma fyrir leik var það tilkynnt að Martin Hermannsson yrði ekki með vegna meiðsla í kálfa. Munaði um minna fyrir íslenska liðið, en Martin var besti leikmaður vallarins í sigri gegn Hollandi fyrir helgina.

Gangur leiks

Heimamenn í Rússlandi byggðu sér upp þægilega forystu strax á upphafmínútum leiksins. Ná að halda Íslendingum stigalausum lengst af í fyrsta leikhlutanum, en þegar hann er á enda er staðan 17-4. Sóknarlega tekur Ísland svo aðeins við sér í öðrum leikhlutanum, en ekki næstum því nóg til að halda í við heimamenn eða minnka forskot þeirra, staðan 42-18 þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.

Heimamenn gera svo útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann 35-18 og eru því 41 stigi yfir fyrir lokaleikhlutann, 77-36. Eftirleikurinn að er virtist nokkuð auðveldur fyrir Rússa þó svo að Ísland hafi klórað aðeins í bakkann í þeim fjórða. Niðurstaðan 24 stiga sigur Rússlands 89-65.

Kjarninn

Það er óhætt að segja að Ísland hafi ekki leikið sinn besta leik í dag. Vissulega án Martins Hermannssonar, sem hafði verið frábær fyrir þá fyrir helgina, en aðrir lykilmenn liðsins virtust alls ekki ná að fylla í það skarð sem hann skildi eftir. Létu annars sterkt lið Rússlands líta vel út frá byrjun til enda.

Staðan í riðlinum þó ekki alslæm eftir þessa fyrstu tvo leiki Íslands. Komnir með einn sigur eftir tvo leiki í fjögurra liða riðil þar sem að þrjú lið munu komast áfram.

Atkvæðamestir

Elvar Már Friðriksson var atkvæðamestur fyrir Ísland í dag með 13 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá bætti Kristófer Acox við 11 stigum og 3 fráköstum.

Hvað svo?

Næsti leikur Íslands í undankeppninni er eftir áramót þann 24. febrúar heima gegn Ítalíu.

Tölfræði leiks

Myndasafn