Stjarnan lagði Tindastól fyrr í kvöld í 7. umferð Subway deildar karla, 87-73.

Eftir leikinn er Stjarnan í 6. sæti deildarinnar með 6 stig, þrjá sigra og fjögur töp á meðan að Tindastóll er í 4. sætinu með 10 stig, fimm sigra og tvö töp það sem af er tímabili.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Baldur Þór Ragnarsson þjálfara Tindastóls eftir leik í MGH.

Baldur…þetta fór allt í lagi af stað…en hvað gerist svo? Þetta virkaði eitthvað svo andlaust hjá ykkur einhvern veginn…

Já, þetta var bara flatt og lélegt, það var einhver smá kafli þarna í öðrum leikhluta sem menn sýndu einhvern smá vilja…

Já…þegar þið jafnið næstum leikinn þarna fyrir hálfleik…

Já…annars bara flatir og lélegir það sem eftir er. Þriðji leikhlutinn byrjar hérna á því að bæði lið virtust ekki vilja vinna þennan leik fyrstu 5 mínúturnar…við ákváðum að nýta ekki það tækifæri sem þar gafst og því fór sem fór.

Lið geta svo sem ekki unnið alla leiki, en þú ert samt væntanlega ósáttur með andann í liðinu?

Já bara mjög ósáttur með þennan leik, bara lélegur leikur og alls ekki sáttur með hvernig við spiluðum þennan leik.

Er einhvern ástæða til að hafa áhyggjur af framhaldinu í samhengi við þennan leik…þetta er nú bara leikur 7 og svona…

Jájá, við bara mætum á æfingu og reynum að verða betri í körfu sko…

Akkúrat, það var náttúrulega bara frestir í liðinu ekki að sýna getu sína í þessum leik, sem dæmi má nefna Bess sem var bara alls ekki vel tengdur í leiknum, þú ert væntanlega sammála mér um það?

Já, bara slakur leikur hjá honum í dag, eins og mörgum öðrum…það er bara eins og það er, við vorum bara ekki góðir í dag.

Sagði frekar súr þjálfari Tindastóls, eðlilega eftir vondan leik hjá sínum mönnum, en viðtalið fer álíka seint í sögubækurnar og spilamennska hans manna í kvöld.