Álftnesingar hafa undanfarið ekki farið varhluta af heimsfaraldri Covid 19, sem tröllriðið hefur veröldinni á síðastliðnum 18 mánuðum. Leik liðsins gegn Haukum var frestað í síðustu viku og nú er staðan sú að hluti leikmannahópsins er annað hvort með virkt Covid smit eða í sóttkví.

Álftnesingar munu þó ekki láta mótlætið aftra sér frá því að mæta liði Hrunamanna í 1.deild karla í kvöld í Forsetahöllinni. Liðið mun mæta með 6 leikmenn úr meistaraflokkshópnum sínum, auk uppfyllingarefnis úr Álftanesi b, skv. Hrafni Kristjánssyni þjálfara liðsins.

Meðal þeirra leikmanna sem koma til með að fylla upp í hópinn er enginn annar en einn dáðasti sonur Álftaness, Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi Subway körfuboltakvölds. Fróðlegt verður að sjá hvort Kjartan fái sénsinn á parketinu í kvöld, en telja verður líklegt að hann verði eini leikmaðurinn á skýrslu sem hefur unnið tvo bikarmeistaratitla á ferlinum. Þá vann Kjartan með Stjörnunni árin 2009 og 2013.

Álftanes tekur á móti Hrunamönnum klukkan 19:15.