Snæfell áfram í VÍS-bikarnum

Snæfell og KR mættust í 16 liða úrslitum VÍS-bikarsins í dag og var viðbúið að leikurinn yrði spennandi. Bæði lið spila í 1. deild kvenna og er eru líkleg í toppbaráttuna í vetur.

Leikurinn var hraður og áhorfendavænn, allar tilbúnar að leggja sig fram í vörninni og bæði lið að spila skemmtilegan bolta oft á tíðum. Það má segja að gamli skólinn hafi mætt nýja skólanum í þjálfarastöðunni. Báðir þjálfarar taktískir og frískir á hliðarlínunni.

Snæfell byrjaði leikinn mjög vel og var það liðsheildin sem skein í gegn þar, á tímabili var staðan 20-9 en KR endaði leikhlutann sterkt og koma stöðunni í 24-16. Næstu tvo leikhluta vann KR samtals með 7 stigum og voru heimastúlkur í Snæfell því með eins stigs forskot fyrir síðasta leikhlutann. Í öðrum og þriðja leikhluta náðu gestirnir að hægja vel á Snæfell í sókninni og þvinguðu þær í erfið skot og mikið drippl.

Það var hins vegar reynslan sem sigraði á endanum og voru Gunnhildur og Rebekka þar í fararbroddi með mikilvægar körfur og stopp í vörninni. Þær stöllur voru með 60 framlagsstig af þeim 95 sem Snæfell náði í leiknum.

Hjá KR var það Angelique sem var allt í öllu en liðsbragur er á ungu og spræku KR liðinu. Margar ungar og efnilegar stelpur komu inn hjá þeim og gerðu vel. Það verður því gaman að fylgjast með baráttu liðanna í 1. deildinni.

Leikurinn endaði með góðum sigri Snæfells 79-73 og eru þær því komnar í 8 liða úrslitin.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)

Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason