KR lagði Njarðvík í kvöld í lokaleik fjórðu umferðar Subway deildar karla, 91-75.

Eftir leikinn er KR í 6.-8. sæti deildarinnar með tvo sigra og tvö töp á meðan að Njarðvík er í 3.-5. sætinu með þrjá sigra og tvö töp.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Njarðvík sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Ná að komast 6 stigum yfir í upphafi fyrsta leikhlutans. KR-ingar svara því þó undir lok fjórðungsins og eru 5 yfir eftir þann fyrsta, 23-18. Með góðum 13-2 kafla í upphafi annars leikhlutans ná heimamenn svo enn frekar að bæta við forystu sína. Mest kemst KR 17 stigum yfir í fjórðungnum, en þökk sé þremur þristum frá Mario Matasovic réttist staðan aðeins fyrir lok fyrri hálfleiksins, 49-41 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Atkvæðamestur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 10 stig, 2 fráköst og 2 stolna bolta. Fyrir Njarðvík var Mario atkvæðamestur með 16 stig og 7 fráköst.

KR nær með herkjum að vera áfram skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins. Leiða enn með 5 stigum eftir þrjá leikhluta, 67-62. Tilfinningin þó þannig að leikurinn geti vel dottið báðu megin. Með sterkum varnarleik ná þeir svo að síga aftur vel framúr í lokaleikhlutanum og sigla að lokum nokkuð öruggum 16 stiga sigur í höfn, 91-75.

Kjarninn

Þessi frammistaða var alls ekki góð hjá Njarðvík. Gera reyndar ágætlega í að vinna niður 17 stiga forystu heimamanna í fyrri hálfleiknum og gera þetta að leik í þeim seinni, en það var eins og þeir ættu lítið á tankinum eftir það. Varnarlega voru þeir agalegir og sóknarlega, fyrir utan Fotios og Mario, fengu þeir alls ekki nógu mikið frá sínum bestu leikmönnum.

Að sama skapi er hægt að segja að KR hafi gert vel. Geta verið sérstaklega ánægðir með karakterinn í liðinu og að hafa ekki misst trúna og klárað leikinn örugglega þrátt fyrir að hafa fleygt góðri forystu frá sér um miðjan leikinn. Fá virkilega góðar frammistöður frá öllu byrjunarliði sínu sem og af bekknum frá Brynjari Þór Björnssyni og Þorvaldi Orra Árnasyni.

Atkvæðamestir

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var bestur í liði KR í dag. Skilaði 19 stigum, 8 fráköstum, 3 stolnum boltum og 3 vörðum skotum. Fyrir Njarðvík var Fotios Lampropoulos fremstur meðal jafningja með 21 stig og 16 fráköst.

Hvað svo?

KR á næst deildarleik komandi fimmtudag 4. nóvember gegn Vestra á Ísafirði, Njarðvík degi seinna föstudag 5. nóvember heima í Njarðtaksgryfjunni gegn Grindavík.

Bæði lið eiga þó leik í VÍS bikarkeppninni áður. Njarðvík gegn Álftanesi í Forsetahöllinni á sunnudaginn og KR heima gegn Keflavík komandi mánudag.

Tölfræði leiks