Keflavík lagði Stjörnuna fyrr í kvöld í annarri umferð Subway deildar karla, 80-65. Keflavík eftir leikinn búnir að vinna báða leiki sína á meðan að Stjarnan hefur unnið einn og tapað einum.

Gangur leiks

Liðin skiptust á snöggum áhlaupum í upphafi leiks, en þegar að fyrsti leikhluti var á enda voru það gestirnir sem voru 2 stigum á undan, 14-16. Leikurinn er áfram nokkuð jafn og spennandi í öðrum leikhlutanum. Þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er Keflavík þó skrefinu á undan, vinna 2. leikhlutann með 6 stigum og eru yfir, 37-33.

David Okeke bestur fyrir Keflavík í þessum fyrri hálfleik með 14 stig og 5 fráköst á meðan að Hlynur Bæringsson var bestur í nokkuð jöfnu liði gestanna með 8 stig og 3 fráköst.

Í upphafi seinni hálfleiksins halda heimamenn áfram þar sem frá var horfið. Gera vel í að halda í forystu sína í þriðja leikhlutanum og bæta aðeins við, en staðan fyrir lokaleikhlutann var 62-53. Með sterkum varnarleik í fjórða leikhlutanum ná þeir svo að sigla að lokum nokkuð öruggum 15 stiga sigur í höfn, 80-65.

Kjarninn

Nokkur haustbragur var á báðum liðum lengi framan af leik, þar sem að á tímabili virtust fá skot þeirra rata rétta leið. Það bættist þó aðeins þegar á leið, en ekki þannig að ekki væri hægt að smella haustbrags stimplinum á leikinn.

Keflavíkurliðið, líkt og Stjarnan, fór í gegnum nokkrar breytingar í sumar. Fyrir Keflavík litu bæði Jaka Brodnik og David Okeke nokkuð vel út í kvöld, þó svo að vissulega eigi liðið nokkuð í land með að finna sínar bestu uppstillingar með þeim. Stjarnan að sama skapi bætti við Hilmari Smára Henningssyni og Robert Turner, sem báðir litu vel út í kvöld og Shawn Hopkins sem hefur átt betri leiki, en líkt og hjá Keflavík bar leikur liðsins þau merki að um leik í fyrstu umferðum væri að ræða.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Keflavík í leiknum var David Okeke með 24 stig og 11 fráköst. Fyrir Stjörnuna var það Hilmar Smári Henningsson sem dró vagninn með 13 stigum og 7 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi fimmtudag 21. október. Stjarnan tekur á móti Íslandsmeisturum Þórs á meðan að Keflavík heimsækir ÍR.

Tölfræði leiks

Myndasafn