Keflavík lagði heimakonur í Val í kvöld í 5. umferð Subway deildar kvenna, 64-84. Eftir leikinn eru liðin jöfn Njarðvík að stigum í efsta sæti deildarinnar með fjóra sigra og eitt tap það sem af er tímabili.

Gangur leiks

Gestirnir úr Keflavík byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Leiða eftir fyrsta leikhluta með 14 stigum, 11-25. Með miklum herkjum ná Valskonur að hanga í Keflavík í öðrum leikhlutanum, en eru þó 12 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-46.

Valskonur halda leiknum svo áfram nokkuð jöfnum í upphafi seinni hálfleiksins. Keflavík leiðir þó enn með 8 stigum eftir þrjá leikhluta, 47-59. Í upphafi þess fjórða setur Keflavík svo fótinn á bensíngjöfina og kemur forystunni í 17 stig á fyrstu tveimur mínútunum. Líta svo ekki í baksýnisspegilinn eftir það og vinna leikinn að lokum með 20 stigum, 64-84.

Kjarninn

Valsliðið var nokkuð fámennt í kvöld, með aðeins níu leikmenn á skýrslu og aðalþjálfara sinn fjarverandi. Samkvæmt heimildum Körfunnar var það vegna veikinda sem geisað hafa í herbúðum þeirra síðustu daga. Virtust án nokkurs vafa finna eilítið fyrir því í kvöld gegn spræku liði Keflavíkur. Íslandsmeistararnir náðu þó að hanga inni í leiknum þrátt fyrir afleitt upphaf á honum. Halda muninum lengi í kringum 10 stig, en virtust svo algjörlega bensín og ráðalausar í upphafi lokaleikhlutans.

Atkvæðamestar

Daniela Wallen Morillo var atkvæðamest í liði Keflavíkur í dag með 23 stig og 11 fráköst og þá bætti Agnes María Svansdóttir við 15 stigum og 4 fráköstum.

Fyrir Val var það Ameryst Alston sem dró vagninn með 23 stigum og 7 fráköstum, og þá var Dagbjört Dögg Karlsdóttir með 16 stig og 4 stoðsendingar.

Hvað svo?

Næsti leikur Keflavíkur er komandi miðvikudag 27. október gegn Breiðablik í Blue Höllinni á meðan að Valur á ekki leik fyrr en 3. nóvember gegn Fjölni heima í Origo Höllinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)