Nýliðinn Cade Cunningham er talinn líklegur til að leika sinn fyrsta leik á næstunni fyrir Detroit Pistons, en eftir að hafa verið valinn fyrstur í nýliðavali sumarsins hefur hann ekki enn náð að leika fyrir liðið. Missti hann af öllu undirbúningstímabilinu, sem og fyrstu fjórum leikjum deildarkeppninnar.

Samkvæmt The Athletic er Cunningham ekki á meiðslalista Pistons fyrir leik kvöldsins gegn Orlando Magic, en leikmenn eru að öllu jöfnu skráðir þar á meðan þeir eru ekki í hóp liða.

Cunningham meiddist á ökkla þann 1. október síðastliðinn, en samkvæmt þjálfara liðsins Dwane Casey mun hann hafa snúið sig og sagði þjálfarinn enn frekar að meiðslin væru ekki alvarleg.

Pistons binda miklar vonir við Cunningham, en þeir tóku hann með fyrsta valrétti nýliðavals 2021. Cunningham er 20 ára og lék fyrir háskólalið Oklahoma State á síðasta tímabili, þar skilaði hann 20 stigum og 40% þriggja stiga skotnýtingu í 27 leikjum á tímabilinu, en hann var valinn leikmaður ársins í Big 12 deildinni

Það sem af er eru Pistons 0-4 og eina sigurlausa liðið í NBA, með verstu sókn deildarinnar og þriðja versta varnarleikinn samkvæmt Basketball Reference.