Nýliðar Njarðvíkur fengu ekki auðveldasta verkefnið í fyrsta leik tímabilsins en mögulega líta þjálfarar Njarðvíkurliðsins á þetta sem nauðsynlega eldskírn, tækifæri til að sjá strax i fyrsta leik hvaða leikmenn liðsins eru tilbúnir í slaginn í úrvalsdeild.

Á meðan Haukaliðið hefur verið að skrá sig í sögubækur íslensks körfubolta þá er Njarðvíkurliðið óskrifað blað, að minnsta kosti ekki saga til næsta bæjar enn sem komið er. Njarðvíkurliðið er skipað leikmönnum sem flestir eru uppaldir hjá félaginu auk þriggja hávaxinna erlendra leikmanna. Hávaxnir leikmenn drjúpa ekki af hverju strái í Njarðvíkunum. Hjá Haukum er er skarð fyrir skildi að Helena Sverrisdóttir er ekki í búning.

Byrjunarlið Hauka: Haiden, Tinna, Elísabet, Eva og Lovísa

Byrjunarlið Njarðvíkur: Vilborg, Helena, Diane, Lavina og Aliyah

FRUMKVÆÐIÐ HJÁ GESTUNUM

Njarðvíkingar byrja leikinn frábærlega og eru með 6-15 forystu eftir eftir fyrstu fimm mínúturnar. Vörnin er þétt, stöðug pressa á boltann, vel frákastað og sóknarmegin á vellinum eru fyrstu skotin að fara niður.

Fyrsta leikhléið er Njarðvíkinga og fyrsta skiptingin líka þegar kamilla kemur inn fyrir Vilborgu. Haukamegin koma inn þær Bríet og Sólrún. Leikurinn breytist aðeins í frákastaslag því skotin hætta að rata báðum megin. Haukar ná því ekkert að minnka muninn og staðan 6-17 þegar Bjarni og Ingvar taka leikhlé og tæplega tvær eftir af leikhlutanum.  Haukar eru sannalega ekki í neinum Evrópuham í byrjun leiks. 

Haukar koma út úr leikhléinu í 2-3 svæðisvörn og spilla fyrstu sókn Njarðvíkinga. Stig eru fágæt núna og vítalínan ein að gefa. Rósa er kominn fyrir Lovisu og hjá gestunum koma inn Lára og Ása ásamt Vilborgu. Bríet nýtir sér kæruleysi, stelur innkasti og læðir niður laumu og fær víti að auki. Síðustu stigin eru Hauka af vítalínunni og staðan 12-18 fyrir gestunum ef fyrsta leikhluta.

VAKNA HAUKAR

Haukar sækja fast í færi nálægt körfunni en eiga enga skiptimynt og fá ekkert gefins. Harðunnin færin skila engu. Hinum megin hafa Haukar hert varnarleikinn og færi Njarðvíkinga fá. Ekki væri óvarlegt að halda því fram á þessum tímapunkti að bæði lið myndu þiggja túkall með þökkum. Það er eitthvað kvalarfult við að horfa á körfubolta þegar lok virðist á körfunni.

Sólrún endar eyðimerkurgönguna með regnbogaþristi og Haiden skellir í hraðaupphlaupssviðskot með vinstri sem jafnar leikinn 18-18. Áfram heldur leikurinn að vera leikur hinna hörðu varna þangað til að Tinna setur þrist eftir vandræðalega sókn Hauka og liðið komið með 21-19 forystu. Leikhlé hjá Rúnari og Lárusi strax í kjölfarið, leikhlutinn hálfnaður.

Njarðvík kemur úr leikhlénu og leita stíft inn í á Lavinu sem lætur verja frá sér skotið rétt við hringinn. Njarðvíkurstúlkum verður þó að hrósa fyrir hvassan og harðan varnarleik. Hvorugt liðið er að fá auðvelda sjónlínu á körfuna. Hvert skot niður verður gulls ígildi og Diane setur þrist og kemur liði sínu yfir 21-22. Njarðvíkingar hafa af harðfylgi náð aftur frumkvæðinu í leiknum. Bjarni, þjálfari Hauka, finnur þetta og setur Haiden og Lovísu inn fyrir Elísabet og Jönu. Aliyah sækir fast á körfuna og uppsker. Frumkvæðið og forystan eru enn gestanna þegar Bjarni tekur leikhlé í stöðunni 21-27 og 01:38 eftir af hálfleiknum. Hvaða breytingu bíður Bjarni uppá þessar 98 sekúndur sem eftir eru? Ekkert, Haukar eru bara ekki að finna lausnir á Njarðvíkurvörninni sem heldur hreinu út hálfleikinn og gestirnir fara inn með 21-29 forystu í Hafnarfirði.

HÁLFLEIKSSTAÐREYNDIR

Njarðvíkingar hafa verið betri á því sem næst öllum tölfræðisviðum og sigruðu augnprófið líka. Betri skotnýting, fleiri fráköst, fleiri stoðsendingar, fleiri stolnir boltar, fleiri víti. Haukarnir eru með færri tapaða bolta og fleiri notaða leikmenn.

BJARNI BREYTIR BYRJUNARLIÐINU Í HÁLFLEIK

Bjarni setti bæði Bríet og Rósu í byrjunarlið seinni hálfleik. Tók út Lovísu og Tinnu. Óbreytt hjá Njarðvík. Haukar eiga fyrstu 4 stigin, þar af Haiden með gott skot af millifæri og lagar skotnýtinguna í 2/10.   Staðan 27-29 eftir tvær mínútur og sama lága talan á teningnum áfram (skotnýtingin býður upp á frákastamet hjá einhverjum). Bríet skorar af harðfylgi og Aliyah svarar með þristi. Annar þristur frá Aliyah, það er eitthvað sexý við allar örvhentar skyttur. Staðan er 31-37 þegar 05:23 eftir. Njarðvíkingar ná að halda frumkvæðinu í leiknum og Haukar virðast ekki ætla að bæta 19,4% skotnýtingu fyrri hálfleiksins. Hörð vörn Njarðvíkinga nær Haukum úr jafnvægi í hverri einustu sókn. Loks lekur úr stíflunni þegar Tinna setur dauðafrían þrist. Bríet fylgir þristinum eftir með flaututvist og Haukar komnir aftur inn í leikinn 36-37. Hinum megin hendir Kamilla í rándýran þrist en Haiden svarar með stuttum tvist, 38-40 og Njarðvík tekur leikhlé þegar 93 sekúndur eru eftir af þriðja leikhluta. Þar á bæ er mikilvægt að enda leikhlutann jákvætt.

Sú ákvörðun þjálfara Hauka að byrja seinni hálfleikinn með Bríet hefur skilað sér vel. Hún hefur verið hættulegasti sóknarmaður Hauka. Bjarni kemur Njarðvík á óvart með svæðisvörn sem heldur vatni og Haiden jafnar leikinn af vítalínunni í næstu sókn Hauka. Aliyah heldur áfram að leiða Njarðvík með einu „and-one“ og er stigahæst á vellinum með 18 stig. Bríet skorar enn og er komin með 11 stig í leikhlutanm, 13 samtals. Staðan er 42-43 fyrir Njarðvík þegar lagt verður í fjórða leikhlutann.

LEGGJA NJARÐVÍKINGAR MEISTARAEFNIN

Fjórði fer af stað eins og þrír forverar hans, leiðin að körfunni er ekki auðveld. Sækja þarf hverja körfu af harðfylgi. Við erum ekki alveg í „Gandalfur á steinbrúnni“ en það munar ekki miklu. Haukar setja fyrstu 4 stigin og komast í 46-43. Rúnar og Lárus eru góðir með sig að grípa ekki til leikhlés og Aliyah kemur aftur til bjargar með góðri körfu. Færi Hauka eru betri þessa stundina en ósýnilega lokið á körfunni er ekki búið að syngja síðasta lagið. Loks kom leikhléið, 06:27 eftir og Haukar með 46-45 forystu. Spennustigið hjá þjálfurnum er býsna hátt enda lykiltími leiksins framundan. Njarðvíkingar eru í frábæru tækifæri til að taka tvö rándýr stig af meistaraefnum Hauka.

Eva fellur við á leiðinni í vörnina og Helena fær galopinn þrist sem hún klárar af sæmd, 46-48 fyrir Njarðvík. Hinum megin borgar Eva fyrir sig, festir Helenu á skríni og setur síðan bæði vítin eftir að Helena brýtur á henni, 48-48.

Nú eru allar sóknir vandræðalegar, ekkert er gefið og dómararnir leyfa verulegar snertingar. Þessi leikur gæti ráðist af vítalínunni. Smá einvígi Haiden og Aliyah(u). Aliyah er sá leikmaður sem líklegastur er til að skapa færin hérna í lokin og Haiden er besti varnarmaður Hauka. 

Risa „fly by“ þristur hjá Diane kemur Njarðvík í 49-52 og Aliyah setur niður hraðaupphlaupsfingurleiksvinstri og fær villu að auki. Leikhlé hjá Bjarna þegar 03:01 eftir, staðan 49-54 og Aliyah á eitt víti inni. Njarðvíkingar eru í kjörstöðu til að hrifsa frábæran sigur. Bjarni kominn með tærnar á tæknivillulínuna og það ekki sekúndunni og seint, hann vantar að kveikja einhvern neista í sínum stúlkum.  Lavina setur tvö góð víti og nú þurfa gestirnir bara naglann í kistuna. Hann setur Aliyah fráærlega upp og Helena setur þrist úr horninu, 60-49.  Haukar kunna ekki að gefast upp og Sólrún svarar í sömu mynt en Diane kemur þessu aftur í 10 stig þegar 93 sekúndur eru eftir. Neyðarleikhlé hjá Bjarna. Þær þurfa kraftaverk og það situr á bekknum í borgarlegum klæðum. Haiden er þó engin aukvisi og sækir körfu og fær villuna að auki, 55-62 eftir vítið.

2-2-1 svæðispressa hjá Haukum sem skilar stolnum bolta og Sólrún með annan þrist. Móðir allra íþrótta er mætt í Ólafssal, 58-62 og enn 78 sekúndur eftir. Leikhlé hjá Njarðvik sem vantar enn eina góða körfu. Diane skilar henni í hús með þristi og staðan orðin 58-65. Næsta Haukasókn skilar engu og þetta er búið, Njarðvík mun fara heim með fyrstu stig liðsins á tímabilinu. Er það virkilega svo að Haukar eru brothættari en ryðgað bárujárn án Helenu?

Síðasta leikhlé Bjarna er tekið þegar 38 sekúndur eru eftir. Þeirra er boltinn og næsti þristur þarf að fara niður innan 5 sekúndna frá því að boltinn kemur í leik. „No-can-do“ og leikurinn er endanlega úr höndum Hauka. Lokatölur 58-66.

 HVAÐ GERÐIST

Haukaliðið 2021 er afrekslið. Þær eru komnar í milliriðil í Eurocup. Þær voru sterkasta varnarlið síðasta tímabils og er spáð titlinum í ár. Njarðvíkurliðið hefur verið fyrstu-deildar-matur í nokkur ár og komust upp í efstu deild vegna þess að Snæfell dró lið sitt úr deildinni.

Njarðvíkurstúlkur hreinlega slógu evrópukeppnislið Hauka út af laginu með hvössum varnarleik í fjörutíu mínútur. Þeim dugði 37% skotnýting til að leggja meistaraefnin frá Hafnarfirði. Þær hirtu 47 fráköst og gáfu afar sjaldan auðveld skot. Þessi leikur hlýtur að vera hlýtt loft undir vængi ungs liðs.

Haukar léku án Helenu Sverrisdóttur, sem er vissulega stór biti að kyngja, en ekki er langt síðan þær lögðu Val Helenulausar til að verða Meistarar meistaranna 2021. Þjálfarar liðsins hafa ærið verkefni að draga liðið niður úr Eurocup skýinu og tryggja báða fætur í hrauninu í Víkingabænum Hafnarfirði. Liðið getur byggt sitt sjálfstraust, sína sjálfsmynd, á einum leikmanni.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtal / Jóhannes Albert

Mynd / Njarðvík FB