Keflavík lagði heimamenn í Breiðablik í kvöld í fjórðu umferð Subway deildar karla, 106-107.

Eftir leikinn er Keflavík eina taplausa lið deildarinnar með fjóra sigra á meðan að Breiðablik hefur unnið einn leik og tapað þremur.

Munar um minna

Besti leikmaður Breiðabliks Everage Lee Richardson var fjarri góðu gamni í kvöld vegna persónulegra ástæðna, en samkvæmt heimildum Körfunnar mun hann ekki heldur verða með liðinu í næsta leik, sem er bikarleikur gegn Val. Það munar um minna fyrir Breiðablik, en í fyrstu þrem leikjum tímabilsins hefur hann skilað 22 stigum, 10 fráköstum og 9 stoðsendingum að meðaltali, en hann er framlagshæsti leikmaður deildarinnar það sem af er.

Gangur leiks

Gestirnir úr Keflavík virðast vera með ágætis tök á leiknum í upphafi. Komast með 7 stigum yfir í fyrsta leikhlutanum. Missa það þó niður undir lok hans og staðan er jöfn, 27-27, þegar sá fyrsti er á enda. Undir lok fyrri hálfleiksins er leikurinn svo áfram nokkuð jafn, þó svo að oftast sé Keflavík 2-3 stigum á undan. Munurinn 5 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 51-56.

Stigahæstir heimamanna í fyrri hálfleiknum voru Sinisa Bilic með 14, Sveinbjörn Jóhannesson og Samuel Prescott með 8 stig hvor. Fyrir gestina var það David Okeke sem var stigahæstur með 18, þá var Calvin Burks með 14 og Jaka Brodnik með 8 stig.

Blikar mæta nokkuð sterkir til leiks í seinni hálfleik. Ná í þriðja leikhlutanum mest að komast 6 stigum yfir, en staðan er 81-78 fyrir þann fjórða. Keflavík nær í upphafi lokaleikhlutans að jafna leikinn aftur og komast yfir. Með nokkrum þristum sem detta hjá þeim komast þeir mest 9 stigum yfir á lokamínútunum. Heimamenn ná þó að koma til baka og eru aðeins stigi undir þegar 2 mínútur eru eftir, 101-102. Liðin skiptast svo á körfum allt fram á lokasekúndurnar. Þegar aðeins eins stigs munur er á liðunum og 1,8 sekúnda er eftir kemst David Okeke á línun og setur tvö víti sem jafna leikinn fyrir Keflavík og koma þeim yfir, 106-107. Lokaskot Blika geigar svo og Keflavík hefur sigur, 106-107.

Kjarninn

Það var nú alveg gefið fyrir þennan leik að Breiðablik myndi reyna að keyra upp hraðann líkt og þeir hafa gert í síðustu leikjum á meðan að Keflavík myndi reyna að spila meira á hálfum velli. Þeirri vegferð gekk Blikum ágætlega á í leiknum. Keflavík hitti hinsvegar á fínan skotleik í seinni hálfleiknum og náði þannig að tryggja sér þennan sigur.

Stigahæstir

Stigahæstur í liði Blika í kvöld var Hilmar Pétursson með 26 og þá bætti Samuel Prescott við 21 stigi.

Fyrir Keflavík var David Okeke stigahæstur með 31 og Calvin Burks var með 27 stig.

Hvað svo?

Keflavík á leik næst heima gegn Íslandsmeisturum Þórs komandi fimmtudag 4. nóvember, Breiðablik heimsækja Grindavík degi seinna, föstudaginn 5. nóvember.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)