Chicago-borg eignaðist sinn fyrsta meistaratitil í körfubolta síðan 1998 er Chicago Sky tryggði sér WNBA titilinn í gær eftir 80-74 sigur á Phoenix Mercury í fjórða leik liðanna í WNBA úrslitunum.

Þetta var fyrsti titill Sky í sögunni en liðið var langt í frá það sigurstranglegasta í deildinni. Það endaði í sjötta sæti með 16 sigurleiki í 32 leikjum en sló svo út bæði Dallas Wings og Minnesota Lynx áður en það mætti toppliði Connecticut Sun í undanúrslitunum þar sem það vann óvænt 3-1.

Kahleah Copper var valin mikilvægasti leikmaður úrslitanna en var með 17,0 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í lokaúrslitunum.

Sigurinn var sérlega sætur fyrir heimakonuna Candace Parker sem ólst upp í úthverfi Chicago en spilaði fyrstu tólf tímabilin í deildinni með Los Angeles Sparks. Hún skipti yfir til heimabæjarliðsins fyrir tímabilið og vann því titil á sínu fyrsta ári með félaginu.