Briana Gray til Hauka – Leikur sinn fyrsta leik í kvöld gegn Brno í EuroCup

Haukar hafa samið við þá bandarísku Briana Gray um að leika með liðinu í FIBA EuroCup samkvæmt Bjarna Magnússyni sem var í viðtali við Stöð 2 í gær.

Briana er 26 ára bakvörður sem kemur til liðsins frá Sparta í Luxemborg, en áður hefur hún einnig leikið fyrir félög í Úkraínu, Portúgal, Rúmeníu, Ástralíu og Finnlandi síðan hún lék fyrir Weber state í bandaríska háskólaboltanum 2018.

Samkvæmt reglum FIBA er í lagi að það séu tveir bandarískir leikmenn á vellinum á sama tíma í EuroCup og geta hún og Haiden Denise Palmer því deilt gólfinu í keppninni.

Haukar taka á móti tékkneska liðinu KP Brno í kvöld í riðlakeppni FIBA EuroCup.

Leikurinn sá þriðji sem bæði lið leika í riðlakeppninni, en fyrir leik kvöldsins höfðu þau skipst á að tapa fyrir frönsku liðunum Tarbes GB og d´Ascq.

Leikurinn hefst kl. 19:30 í Ólafssal og verður í beinni útsendingu FIBA hér.