Breiðablik tók á móti ÍR í Smáranum í Kópavogi í annarri umferð Subway-deildar karla. Bæði lið höfðu tapað fyrsta leik tímabilsins í framlengingu, Blikar gegn KR og ÍR-ingar gegn Stjörnunni. Leikurinn var í járnum framan af en Breiðablik sleit sig frá ÍR í fjórða leikhluta og unnu leikinn örugglega, 107-92.

Gangur leiksins

Breiðablik byrjaði leikinn ágætlega og náði fljótt eilítilli forystu en ÍR-ingar voru fljótir að ná vopnum sínum og liðin hófu að skiptast á að leiða allan fyrri hálfleikinn. Hraðinn var mikill og ljóst var að Blikar hyggðust ætla reyna sprengja ÍR á hlaupum og hraða. ÍR misstu þó ekki dampinn og héldu í við heimamennina úr Kópavogi án teljandi vandræða. Leikurinn var mjög jafn og hvorugt lið náði meira en sex stiga forystu allan fyrri hálfleikinn. Blikar höfðu fimm stiga forystu þegar liðin héldu í búningsklefann, 47-42. Það virtist ekki sem annað hvort liðin væri raunverulega með tökin í leiknum og að þau væru bæði eilítið agalaus. Slíkt virtist henta Breiðablik aðeins betur, sem vildi frá upphafi spila þannig.

ÍR var ekki lengi að minnka muninn í seinni hálfleik og Breiðhyltingar tóku forystuna aftur eftir nokkrar mínútur. Blikar virtust hafa slakað aðeins of mikið á og liðin fóru aftur að skiptast á að leiða. Um miðbik þriðja leikhlutans tók Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, þriggja manna skiptingu innan síns liðs og Blikar hlóðu í 14-5 áhlaup með úthvíldum löppum Sinisa Bilic og sona þjálfarans, Hilmari og Sigurði Péturssona. Borce Ilievski, þjálfari ÍR, tók leikhlé og skipti bandarískum leikmanni sínum, Shakir Smith, út af. Þá virtist komast meiri ró á sóknarleik ÍR-inga og þeir náðu að brúa bilið fyrir lok leikhlutans. Staðan var 72-70 þegar tíu mínútur lifðu leiks.

Leikurinn fór að fjara út hjá gestunum eftir aðeins nokkrar mínútur í lokafjórðungnum. Hinir bláklæddu úr Breiðholtinu fóru að hitta verr og tapa boltum og Blikar gengu á lagið. Í stað þess að reyna að hægja á leiknum þá fóru of margir hjá ÍR-ingum að reyna skjóta sig út úr vandræðunum sem gekk ekki vel. Úr stöðunni 79-79 skoruðu Breiðabliksmenn 11 stig gegn 2 hjá ÍR á tveimur mínútum. Í fimm mínútur gátu ÍR-ingar aðeins skorað 5 stig og allt gekk á afturfótunum. Breiðablik vann leikinn að lokum með ágætum mun, 107-92.

Lykillinn

Hilmar Pétursson og Everage Richardson voru mjög mikilvægir fyrir Breiðablik í leiknum. Þeir stýrðu hraðanum hjá sínum mönnum af stakri prýði og áttu mestan þátt í sigri sinna mann. Hilmar var 23/5/7 (stig/fráköst/stoðsendingar) og hitti úr 82% skota sinna utan af velli. Everage skilaði 18/8/10 og átti þó nokkrar glæsilegar stoðsendingar á nýja liðsmenn sína.

Hjá ÍR var Colin Pryor mjög góður þó það hafi ekki dugað til. Hann var 24/9/2 með 69% skotnýtingu og fór illa með minni og veikari varnarmenn Blika nálægt körfunni.

Tölfræðin lýgur ekki

Breiðablik tókst áætlunarverk sitt að keyra upp hraða leiksins sem sést best í fjölda sókna hjá liðunum, 103 sóknir á lið á 40 mínútum. Til samanburðar þá náðu lið Vestra og Keflavíkur aðeins tveimur fleiri sóknum í tvíframlengdum leik (10 auka mínútur) í umferðinni á undan.

Hraðinn virtist ekki henta ÍR-ingum, sem fengu talsvert fleiri villur dæmdar á sig (23 á móti 11) og leiddu til þess að Blikar tóku 17 fleiri vítaskot en ÍR í leiknum.

Kjarninn

Hraður leikur Breiðabliks var ÍR-ingum um of og skilaði Kópavogsliðinu sigri að þessu sinni. Það gekk ekki eftir í fyrsta leiknum gegn KR en Pétur Ingvars, þjálfari Blika, virðist hafa tröllatrú á þessu útspili, að keyra á önnur lið. Blikar munu halda áfram að spila svona og vonast til að hleypa leiknum upp í óreiðu sem óöguð lið gætu átt í erfiðleikum með að stöðva.

Lið Borce Ilievski eru yfirleitt öguð og spila góðan varnarleik en það varð ekki raunin í þessum leik. Að sögn þjálfarans er hann með nokkuð nýtt lið í ár (enn og aftur) sem gerir því erfitt fyrir að treysta hverjum öðrum og spila fyrir hvern annan. Eftir tvo ósigra í fyrstu tveimur umferðunum og þungt leikjaplan framundan þá er ekki seinna vænna að laga það.

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik

Pétur Ingvars, þjálfari Breiðabliks, eftir vel sóttan sigur.

Everage Richardson, leikmaður Breiðabliks og fyrrum leikmaður ÍR, eftir sigurinn.

Borce Ilievski, þjálfari ÍR, eftir slæmt tap hans manna.

Colin Pryor, leikmaður ÍR, eftir erfitt tap gegn gömlum liðsfélögum sínum.