Valur lagði Stjörnuna í MGH í dag í 8 liða úrslitum VÍS bikarkeppni kvenna, 53-79. Valskonur eru því komnar í undanúrslitin, en þar munu þær mæta Haukum komandi miðvikudag 15. september.

Valskonur byrjuðu leik dagsins af miklum krafti. Leiddu með 20 stigum eftir fyrsta leikhluta, 7-27. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Stjarnan áttum, en munurinn enn 19 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 23-42.

Í upphafi seinni hálfleiksins halda gestirnir úr Reykjavík uppteknum hætti og ná aðeins að bæta við forskot sitt, eru 22 stigum yfir fyrir þann fjórða, 40-62. Í honum gera þær svo nóg til að sigla að lokum frekar öruggum 26 stiga sigur í höfn, 53-79.

Atkvæðamest fyrir Val í leiknum var Guðbjörg Sverrisdóttir með 23 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá bætti Ásta Júlía Grímsdóttir við 26 stigum og 10 fráköstum.

Fyrir Stjörnuna var það Diljá Ögn Lárusdóttir sem dró vagninn með 13 stigum og 10 fráköstum og Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir skilaði 9 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Tölfræði leiks