Eftir um átta mánaða bið fór úrslitaleikur VÍS-bikars karla fram í Smáranum í kvöld, en þar mættust bikarmeistarar síðustu tveggja ára, Stjarnan, og Njarðvík. Þessi lið höfðu áður mæst í úrslitum bikarsins, en Garðbæingar unnu Njarðvíkinga í eftirminnilegum úrslitaleik árið 2019, sem virðist vera fyrir heilli öld síðan, sé tillit tekið til alls sem hefur gerst í millitíðinni.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta fjórðungi, og var það einungis flautuþristur Loga Gunnarssonar sem skildi að eftir einn leikhluta, 20-23. Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Njarðvíkingar voru hænuskrefi á undan, en Stjörnumenn fylgdu þeim eins og skugginn. Staðan í hálfleik 49-54, grænum í vil.

Í þriðja leikhluta tóku Njarðvíkingar hins vegar öll völd á vellinum. Suðurnesjamenn settu hvert stigið á fætur öðru, á meðan Garðbæingar gátu varla keypt sér körfu. Dedrick Basile kveikti í netinu með nokkrum þristum, og Fotios Lampropolous var illviðráðanlegur inni í teignum. Svo fór að Njarðvík vann þriðja fjórðung með 11 stigum, 15-26, og hafði því sextán stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 64-80.

Ef einhverjir héldu að leiknum væri þar með lokið, þá var það af og frá. Stjörnumenn mættu dýrvitlausir til leiks í fjórða leikhluta og hófu hann á 18-6 áhlaupi. Staðan var þá skyndilega orðin 82-86, grænum í vil og allt útlit fyrir ótrúlegan endasprett. Allt kom þó fyrir ekki. Njarðvíkingar náðu að halda út og landa sigrinum, 93-97 lokastaðan og Njarðvík er bikarmeistari árið 2021.

Af hverju vann Njarðvík

Auðvelt er að segja að frábær þriðji leikhluti hafi gert gæfumuninn hjá Njarðvík í kvöld, en það væri helst til of mikil einföldun. Það sem skóp að mati undirritaðs helst sigur Njarðvíkur voru taugarnar sem leikmenn liðsins sýndu undir lok leiksins, þegar Stjörnumenn voru farnir að anda óþægilega mikið ofan í hálsmálið á þeim. Stjörnumenn geta hins vegar nagað sig í handarbökin. Ömurlegur þriðji leikhluti skildi þá eftir í holu sem reyndist einfaldlega of djúp. Þeir fengu þó ágætis tækifæri til að minnka muninn enn frekar, en köstuðu boltanum þá yfirleitt frá sér eða misstu hann á annan hátt.

Bestur

Tveir leikmenn stóðu upp úr í liði Njarðvíkur, en það voru þeir Dedrick Basile og Fotios Lampropolous. Stjörnumenn réðu ekkert við Lampropolous undir körfunni allan leikinn, og Basile kveikti í netinu á tímabili. Basile lauk leik með 24 stig og Lampropolous 20.

Hjá Stjörnunni bar Hilmar Smári Henningsson af með 26 stig.

Bikarmeistarar

Njarðvíkingar eru því VÍS-bikarmeistarar árið 2021, og eru að auki fyrsta liðið sem vinna Stjörnuna í bikarnum frá því Haukar lögðu Garðbæinga þann 16. október árið 2017!

Til hamingju Njarðvík!

Tölfræði leiks

Myndasafn