Seinni undanúrslitaleikur VÍS-bikars karla fór fram í Mathús Garðabæjarhöllinni í gærkvöldi, fimmtudag, þegar heimamenn í Stjörnunni tóku á móti Tindastóli. Fyrir leik var ljóst að sigurvegari leiksins myndi mæta Njarðvíkingum í úrslitaleik bikarsins árið 2021, sem fer fram í Smáranum laugardaginn 18. september.

Gestirnir úr Skagafirði byrjuðu leikinn betur og sýndu mikinn ákafa á báðum endum vallarins. Stjörnumenn komust hins vegar betur inn í leikinn þegar á leið fyrsta leikhluta, og höfðu að honum loknum fjögurra stiga forskot, 24-20.

Stólarnir tóku hins vegar öll völd á vellinum í öðrum fjórðung. Vörn gestanna var til fyrirmyndar, og þvinguðu þeir fram 13 tapaða bolta hjá Garðbæingum í fyrri hálfleik. Tindastóll vann annan leikhluta með heilum þrettán stigum, 15-28, og höfðu því níu stiga forskot í hálfleik, 39-48.

Það forskot entist þeim hins vegar ekki lengi, því Stjörnumenn svöruðu með því að vinna þriðja fjórðung með nákvæmlega sama mun, 28-15, og höfðu því fjögurra stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Í lokafjórðungnum höfðu Stjörnumenn yfirhöndina, og þó að Stólarnir hafi náð að komast einu stigi yfir í stöðunni 69-70, þá var það í síðasta skipti sem gestirnir komust yfir í leiknum. Að lokum unnu heimamenn fimm stiga sigur, 86-81, og munu mæta Njarðvík í úrslitum VÍS-bikarsins næstkomandi laugardagskvöld í Smáranum.

Af hverju vann Stjarnan?

Eftir afskaplega dapran annan leikhluta náðu Stjörnumenn að laga ákveðna hluti hjá sér í sóknarleiknum í þeim seinni, sem fleytti Garðbæingum langt. Liðið tapaði til að mynda 13 boltum í fyrri hálfleik, en aðeins 5 í þeim seinni. Stólarnir voru auðvitað aldrei langt á eftir, en það reyndist dýrt fyrir liðið að missa Sigurð Gunnar Þorsteinsson út af með fimm villur í upphafi fjórða leikhluta, og Thomas Kalmeba-Massamba meiddan út af skömmu síðar.

Hver stóð upp úr?

Shawn Dominique Hopkins var mjög góður í liði Stjörnunnar í kvöld og lauk leik með 20 stig og 9 fráköst. David Gabrovsek var einnig öflugur hjá heimamönnum með 16 stig og 10 fráköst. Hjá gestunum voru margir jafnbestir. Javon Bess var stigahæstur með 20 stig og Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 15.

Framhaldið

Eftir leik kvöldsins er ljóst að Stjörnumenn munu leika til úrslita í bikarkeppni KKÍ þriðja árið í röð, en Stjörnumenn eru auðvitað sigurvegarar síðustu tveggja bikarkeppna. Liðið mætir Njarðvík í úrslitaleik laugardaginn 18. september klukkan 19:45. Tindastóll eru hins vegar úr leik, og munu nú væntanlega einblína á að slípa saman lið sitt fyrir fyrsta leik í úrvalsdeild karla, þar sem Skagfirðingar mæta Val á Króknum 8. október.