Pollamót Þórs í körfuknattleik fór fram sl. laugardag. Á annað hundrað keppendur í 17 liðum leiddu saman hesta sína í Íþróttahöllinni á Akureyri og úr varð mikil skemmtun. Stórskemmtileg tilþrif sáust í leikjunum (þ.m.t. tröllatroðsla) og ekki var annað að sjá en að allir skemmtu sér frábærlega. Þrátt fyrir mikið kapp bar það ekki fegurðina ofurliði.

Þegar upp var staðið var það lið AFK sem varð hlutskarpast í Pæjudeildinni (20 ára og eldri konur)

Þá vann Martraðarvík Polladeildina (25 til 39 ára karla)

og Frjálsir hestar stóðu uppi sem sigurvegarar í Lávarðadeildinni (karlar 40 ára og eldri)

Mótið þótti takast mjög vel í alla staði sem og kvöldskemmtunin í kjölfarið þar sem þjóðargersemin Helga Braga sló í gegn. Hápunktur kvöldsins var hins vegar þegar bræðurnir Eiríkur og Jóhann Sigurðssynir voru heiðraðir fyrir að hafa fyrstir staðið fyrir öldungamótum í körfuknattleik á Akureyri. Fyrsta slíka mótið héldu þeir bræður árið 1999 og það síðasta árið 2015.

Skipuleggjendur Pollamóts Þórs í körfuknattleik þakka öllum keppendum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá alla aftur að ári og fleiri til. Nánari tímasetning verður auglýst áður en langt um líður.

Mótsnefnd þakkar þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við mótið. Án ykkar framlags væri ekki hægt að halda svona mót. Einn af okkar frábæru sjálfboðaliðum, Páll Jóhannesson, tók fullt af myndum um miðbik móts og setur þær inn á thorsport.is á næstunni.

Pollamóts Þórs í körfuknattleik í ár var styrkt af Viðburða- og vöruþróunarsjóði Akureyrarbæjar. Mótsnefnd þakkar einnig öðrum styrktaraðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag (Kjarnafæði, Kristjánsbakarí og Vífilfelli).

Albúm 1

Albúm 2