Það var eðlilega haustbragur á leik Grindavíkur og Breiðabliks í 16-liða úrslitum VÍS bikarsins í kvöld í Grindavík, enda undirbúningstímabil á fullum krafti. Á þessum tíma hafa lið venjulega verið að spila æfingamót en sökum ákveðinnar veiru þá þurfti að slá bikarkeppni KKÍ af í vetur og bikarinn því spilaður núna í september og bikarmeistari 2021 verður krýndur.


Ég ætla ekkert að hafa mörg orð um þennan leik en Grindavík vann eftir framlengingu. Nýliðar Breiðabliks börðust eins og ljón – kannski aðeins of mikið því baráttan skilaði heilum fimm leikmönnum út af með fimm villur en í lið þeirra vantaði auk þess Kanann Prescott og hinn slóvenska Slavia Bilic sem lék með Val í fyrra og þar áður með Tindastól.

Grindvíkingar fengu leikheimild fyrir báða útlendingana sína og voru hlutskipti þeirra nokkuð ólík, Ivan Aurrecoechea sem lék með Þór í fyrra var mjög öflugur inn í teig og setti 30 stig en Kaninn Malik Belevi hafði nokkuð hægt um sig en óx aðeins ásmegin í lokin. Þar sem hann er rétt að átta sig á landi og þjóð þá yrði ósanngjarnt að dæma hann af þessari frumraun.


Ólafur Ólafs var framlagshæstur heimamanna með 35 punkta (27 stig og 12 fráköst) en Ivan var með 32 (30 stig og 23 fráköst en 6 tapaðir boltar og léleg vítanýting skilaði honum ekki hærra framlagi).


Hjá Blikum var Hilmar Péturs bestur, bæði ef mið er tekið af framlagi og eins sýn undirritaðs. Hann var með 34 framlagsstig (30 stig). Everage Richardson kom honum næstur með 32 puntka (28 stig og 10 fráköst).

Tölfræði leiks

Hérna eru önnur úrslit kvöldsins