Reynir Sandgerði sem unnu 2. deild karla á síðustu leiktíð virðast ætla að draga liðið úr keppni fyrir komandi leiktíð í 1. deild karla. Liðið hafði unnið sér sæti í næstefstu deild og var ákveðið í að taka sæti sitt. Í dag virðist allt útlit fyrir að meistaraflokkurinn verði lagður niður. Víkurfréttir greindu frá þessu í dag.

Ekkert hefur heyrst af leikmannamálum Reynis í sumar og voru nokkur spurningamerki um hvort þeir yrðu með. Sveinn Hans Gíslason sem hefur verið forsprakki körfuknattleiksdeildar Reynis síðustu ár sagði í samtali við Víkurfréttir að útlit væri fyrir meistaraflokkur væri lagður niður þar sem það vantaði fleiri hendur til að halda utan um liðið.

Þá bætti hann við: ” Þar sem að stutt er í fyrsta leik og þetta staðan þá ákvað ég að eftir að hafa séð um allan pakkann í tæp 34 ár að núna væri kominn tími á að stoppa að gera þetta einn. Því miður hefur enginn boðið sig fram til að aðstoða við vinnu á leikjum og fjáröflun. Það má líka minnast á það að deildin er skuldlaus. Þess vegna stefnir í að meistaraflokkur verði lagður niður – en ég mun samt halda áfram með níunda flokk og skoða hvort hægt verði að vera með flokk fyrir tólf ára og yngri,“

Reynir á að mæta Haukum í fyrstu umferð 1. deildarinnar þann 27 september næstkomandi og því einungis 22 dagar að deildin hefjist. Staðfesta þurfti þáttöku í deildinni fyrir þann 1. júní síðastliðin og samkvæmt reglugerð KKÍ þýðir það að Reynir á yfir höfði sér 250.000 kr sekt fyrir að draga liðið úr leik ásamt tvöföldu þátttökugjaldi viðkomandi deildar.

Það er því allt útlit fyrir að 1. deild karla verði aftur með 9 liðum, þar sem tíminn er naumur fyrir önnur lið að taka sæti Reynis. Slíkt var líka raunin á síðustu leiktíð en Snæfell dróg liðið úr leik á síðustu stundu. Gera má því ráð fyrir að ekkert lið muni þar með falla 1. deildinni á næstu leiktíð.