Sóllilja Bjarnadóttir hefur samið við A3 Basket Umea í Svíþjóð um að leika með liðinu á komandi tímabili. Staðfestir Sóllilja þetta við Körfuna fyrr í dag, en hún mun vera að flytja til þess að taka hluta af doktorsnámi sínu við háskólann í Umea.

Umea leikur í sænsku úrvalsdeildinni og hafnaði í 9. sætinu á síðustu leiktíð. Þess má geta að liðið leikur einnig í EuroCup þetta tímabilið, sem er sama keppni og Haukar hafa skráð sig í og má því vera að liðin mætist á tímabilinu, en dregið verður á fimmtudag.

Sóllilja lék á síðasta tímabili með uppeldisfélagi sínu í Breiðablik í úrvalsdeildinni, en í 21 leik spiluðum skilaði hún 8 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali. Sóllilja, sem er 26 ára, hefur leikið með meistaraflokki síðan 2011, en ásamt Breiðablik hefur hún áður leikið með Stjörnunni, Val og KR. Þá hefur hún einnig leikið sex landsleiki fyrir Íslands hönd síðan árið 2017.