ÍR hefur samið við hinn portúgalska Shakir Smith um að leika með liðinu á komandi tímabili í Úrvalsdeild karla. Shakir er 28 ára gamall, 185 cm bakvörður sem kemur til liðsins frá Sporting í heimalandinu, en þar skilaði hann 7 stigum, frákasti og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik á síðasta tímabili. Þar áður hefur hann einnig leikið sem atvinnumaður í Búlgaríu, Makedóníu og í Svíþjóð.

Tilkynning:

Körfuknattleiksdeild ÍR hefur komist að samkomulagi við Shakir Smith um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili. Shakir kemur til ÍR frá Portúgalska liðinu Sporting þar sem hann lék síðasta tímabil. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Shakir leikur með liði á Norðurlöndunum en keppnistímabilið 2018-2019 lék hann í Svíþjóð með Norrköpping. Í deildarkeppninni síðasta tímabil með Sporting spilaði Shakir að meðaltali 14 mínútur í leik og skilaði á þeim tíma 7 stigum, 1,3 fráköstum og 2,3 stoðsendingum. Sporting lék einnig í Eurocup og í þeim leikjum skilaði hann 11 stigum, 2,7 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik.