Stjarnan hefur samið við hinn bandaríska Robert Turner III um að leika með liðinu á komandi tímabili í úrvalsdeild karla. Robert er 188 cm leikstjórnandi sem kemur til liðsins frá Aurore de Vitre í frönsku þriðju deildinni, en þar skilaði hann á síðasta tímabili 20 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Samkvæmt tilkynningu Stjörnunnar mun Robert mæta til landsins eftir helgina og því vera klár í slaginn í fyrsta leik Vís bikarkeppninnar þann 7. september.

Koma Robert þýðir þó að líklega verði ekkert af komu fyrrum NBA leikmannsins Josh Selby til liðsins, en Karfan hafði sagt frá því fyrr í vikunni að félagið ætti í samningsviðræðum við leikmanninn.

Tilkynning:

Gengið hefur verið frá samningi við Robert Turner III (hinn þriðji) og hann mun leika stöðu leikstjórnanda. Robert er mikill íþróttamaður, er 188 cm á hæð, örvhentur, með mikinn sprengikraft. Hann getur einnig leikið í stöðu skotbakvarðar.
Hann hefur síðustu tvö ár leikið í NM1 deildinni í Frakklandi með Vitre (3.deild) þar sem hann var stigahæstur annað árið (20.3 stig) og í öðru sæti seinna árið (20.5 stig).
Robert útskrifaðist frá Texas Tech háskólanum með 8.4 stig en fyrsta árið hans sem atvinnumaður var í ABA í Bandaríkjunum og seinna um árið í Janúar fór hann til Mongolíu. Hann hélt áfram í Mongolíu árið eftir en lék með tveimur liðum þar, hann var valinn besti maður deildarinnar. Tímabilið 2017-2018 lék hann í NM1 í Frakklandi þar sem hann var 5. stigahæsti leikmaðurinn með um 17 stig en árið eftir 2018-2019 lék hann í Leb Gold (2.deildin á Spáni) þar sem Ægir mun leika í vetur. Hann var með um 10 stig í leik þar. Síðustu tvö ár eins og áður segir lék hann með Vitre í Frakklandi.
Robert mætir fullbólusettur og klár í slaginn strax eftir helgina. Þar með verður hópurinn fullmannaður á æfingum í næstu viku enda stutt í að tímabilið hefjist. Fyrsti leikur hjá strákunum er gegn KR þriðjudaginn 7. september í VÍS bikarnum en stelpurnar opna tímabilið daginn áður gegn Tindastól í sömu keppni. Báðir leikirnir í Mathús Garðabæjar höllinni.