Norðurlandamót yngri landsliða er nú haldið í fimmta skipti í Kisakallio í Finnlandi. Þar kepptu undir 16 ára lið stúlkna og drengja dagana 1.-5. ágúst á meðan að undir 18 ára liðin keppa nú 16.-20. ágúst.

Af þeim 12 leikmönnum sem eru í undir 18 ára liði drengja er einn sem að lék ekki með yngri eða meistaraflokkum á Íslandi á síðasta tímabili, en fyrir tímabilið ákvað Njarðvíkingurinn Róbert Sean Birmingham að söðla um og ganga til liðs við (þá) Spánarmeistara Baskonia.

Róbert Sean er reyndar ekki eini leikmaðurinn sem leikið hefur erlendis, en Almar Orri Atlason var áður á mála hjá Stella Azzurra á Ítalíu áður en hann gekk aftur til liðs við KR og þá er leikmaður Hauka Ágúst Goði Kjartansson á leiðinni til Paderborn í Þýskalandi nú á næsta tímabili.

Samningurinn sem Róbert Sean gerði við Baskonia var til fjögurra ára, þar sem að aðeins fyrstu tvö árin voru örugg, en svo verður sest aftur að samningsborðinu og tekin ákvörðun með seinni tvö árin.

Karfan fékk Róbert Sean í spjall laust eftir hádegismat í Kisakallio í dag og spurði hann út í landsliðið, Baskonia og veruna á Spáni.