Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.

  • Heyrst hefur að landsliðsmaðurinn Kári Jónsson sé með risatilboð á borðinu frá Val og að semji hann við lið á Íslandi verði það alveg örugglega þar, en enn er óstaðfest hvar hann muni leika á næsta tímabili.
  • Ekki hefur enn verið staðfest að annar leikmaður Vals Pavel Ermolinski muni vera með liðinu í vetur. Heyrst hefur að hann sé að íhuga að hætta eða að skipta um lið fyrir komandi tímabil.
  • KR munu samkvæmt orðrómi vera í viðræðum við hinn bandaríska Shawn Glover um að leika með liðinu. Glover lék með Tindastól við góðan orðstýr á síðasta tímabili, en yfirgaf liðið þegar lítið var eftir af vetrinum.
  • Þá hefur einnig heyrst að KR sé í samningsviðræðum við Mike Di Nunno, sem varð Íslandsmeistari með liðinu 2019.
  • Þá hefur heyrst að hinn bandaríski CJ Burks muni koma aftur til Keflavíkur eftir að eitthvað hafi klikkað hjá nýja liði hans í Úkraínu.
  • Marko Jurica fyrrum leikmaður Sindra í fyrstu deildinni ku vera undir smásjánni hjá ÍR og er talið líklegt hann leiki fyrir félagið á komandi tímabili.
  • Heyrst hefur að Embla Kristínardóttir verði alveg örugglega með Skallagrím í vetur, en hún verður þá ein fárra leikmanna sem halda áfram með liðinu.
  • Þá hefur sá orðrómur gengið að Þróttur Vogum sé að safna liði í 2. deildinni og muni mögulega stilla fram kunnulegum andlitum í vetur.
  • Þá hefur það einnig heyrst að Reynir Sandgerði, nýliðar í fyrstu deild karla, séu að íhuga stöðu sína og hvort liðið eigi að fara upp.

Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á karfan@karfan.is