Undir 16 ára drengjalið Íslands tapaði í kvöld fyrir Noregi á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 58-56.

Hérna er hægt að sjá stöðuna í mótinu

Gangur leiks

Noregur nær forystunni strax á upphafmínútum leiksins. Mun meiri stemning og áræðni þeirra megin. Eftir fyrsta leikhluta eru þeir 7 stigum yfir, 23-16. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Ísland að koma til baka og jafna leikinn, 31-31, en staðan er 35-33 fyrir Noregi þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Það var svo eins og einhver hefði sett lok á báðar körfurnar í upphafi seinni hálfleiks, þar sem báðum liðum gekk frekar illa að skora í þriðja leikhlutanum. Eftir hann var Noregur þó enn stigi á undan, 42-41. Ísland kemst svo aftur í forystu í leiknum í fjórða leikhlutanum. Ekki munaði þó miklu á liðunum á lokamínútunum þar sem að Noregur var aldrei meira en körfu fyrir aftan.

Ekki mátti miklu muna á liðunum á lokamínútunni. Þegar um 40 sekúndur eru eftir stelur Þórður Jónsson boltanum og kemur Íslandi yfir með þriggja stiga körfu, 55-56. Í sóknum eftir það kemst Noregur á vítalínuna í tvö skipti þar sem þei setja samtals 3 stig. Á móti klikkar Ísland úr tveimur þriggja stiga skotum, það seinna aftur frá Þórði er lítið var eftir af leiknum. Niðurstaðan 58-56 sigur Noregs.

Meiddur

Í lið Íslands í dag vantaði Björgvin Huga Ragnarsson, en hann snéri sig á ökkla gegn Finnlandi í gær. Fregnir herma að ekki hafi verið um alvarleg meiðsl að ræða og að hann verði kominn aftur í leikmannahóp liðsins á morgun gegn Danmörk.

Kjarninn

Ísland hefði vel getað unnið þennan leik, líkt og þeir hefðu vel getað unnið leikina á móti Eistlandi og Finnlandi, en allt kom fyrir ekki. Voru alltof duglegir að senda Noreg á vítalínuna í leiknum og áttu á löngum köflum eilítið erfitt með að skora. Annars ágætir, munaði alls ekki miklu á liðunum og hálf grátlegt að liðið hafi ekki náð í fyrsta sigurinn í þessum leik.

Tölfræðin lýgur ekki

Noregur fær 37 víti á móti aðeins 17 vítum Íslands. Heppilegt að Noregur skaut þeim bara 59%, en að sama skapi var Ísland enn verra, með 47% nýtingu af gjafalínunni.

Atkvæðamestir

Framlagshæstur í nokkuð jöfnu liði Íslands í dag var Kristján Fannar Ingólfsson með 10 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar. Þá bætti Tómas Valur Þrastarson við 8 stigum og 11 fráköstum og Jóhannes Ómarsson 8 stigum og 3 stolnum boltum.

Tölfræði leiks

Myndasafn