KB Prishtina frá Kosovo tilkynnti í dag að það hefði samið við Nick Tomsick um að leika með félaginu á komandi leiktíð.

Tomsick, sem hefur leikið undanfarin þrjú tímabil á Íslandi, lék á síðustu leiktíð með Tindastól þar sem hann var með 21,5 stig og 6,8 stoðsendingu að meðaltali í leik. Hann lék hér fyrst á landi tímabilið 2018-2019 með Þór Þorlákshöfn en þá leiddi hann Úrvalsdeildina, ásamt Ægi Steinarssyni, í stoðsendingum með 7,5 að meðaltali í leik. Tímabilið eftir lék hann með Stjörnunni og með félaginu varð hann bæði bikarmeistari og meistari meistaranna.

Tomsick er fæddur í Bandaríkjunum en er einnig með króatískt ríkisfang. Auk Íslands hefur hann leikið í Króatíu, Englandi og Þýskalandi á atvinnumannaferlinum.