Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson lék á dögunum með Phoenix Suns í sumardeild NBA deildarinnar, en hann var fyrsti íslenski leikmaðurinn sem lék í henni síðan að miðherji Zaragoza Tryggvi Snær Hlinason lék þar fyrir Toronto Raptors árið 2018.

Jón Axel lék fyrir Fraport Skyliners í efstu deild í Þýskalandi á síðasta tímabili eftir að hafa klárað glæstan feril hjá Davidson í bandaríska háskólaboltanum. Sumardeildin er sem slík að sjálfsögðu eins og prufa fyrir NBA deildina, þar sem að nýliðar og þeir er vongóðir um að fá samning mæta til leiks.

Karfan setti sig í samband við Jón og spurði hann út í leikina í Las Vegas og framhaldið.

Hvernig var að spila í sumardeild NBA deildarinnar?

“Það er náttúrulega gríðarlegur munur á leiknum sjálfum og varnareglum sem er erfitt að aðlagast á stuttum tíma. Svo er Sumardeildin lika svona bolti sem að dómararnir eru að leyfa miklar snertingar þegar fólk er að fara upp í sniðskot og í fráköst. Þannig þetta eru bara miklu meira physical og sneggri körfuboltamenn. Svo er þriggja stiga línan náttúrulega töluvert lengri en í Evrópu”

Hvað er það helsta sem þú tekur frá svona reynslu?

“Bara það að sjá hvað maður þurfi að gera til þess að komast á þetta level. Ég held þetta hafi hjálpað mér gríðarlega sem leikmanni að sjá hvað ég þarf að vinna í til þess að komast á þetta level og svo einnig bara hversu mikið þú þarft að leggja inn í þetta. Við vorum í sumardeildinni og við vorum uppi í íþróttahús 6-8 klukkutíma á dag að æfa og lyfta og í recovery. Þannig ef við sumardeildarliðið erum svona mikið þarna, geturðu reynt að setja þig í spor leikmanna sem eru í NBA deildinni og hversu lengi þeir eru þá í íþróttahúsinu. Svo nærðu að setja þig í samband við þjálfara sem eru til staðar fyrir þig allan ársins hring ef þér vantar eitthvað. Þá eru þeir alltaf tilbúnir að hjálpa þér”

Nú er þetta náttúrulega einskonar atvinnuviðtal, sérðu fyrir þér að fara aftur þangað, eða fá boð um að æfa með einhverjum liðum?

“Já, þetta opnaði klárlega miklu stærri dyr fyrir mig. Þar sem ég spilaði fyrir framan öll 30 NBA liðin í Vegas og æfði með Suns í 9 daga og spilaði svo 5 leiki með þeim þannig þeir fá mest að sjá þig, en ef þú stendur þig heillar það hin liðin líka. Það er mikill áhugi og erum að tala við nokkur lið í deildinni núna og hvort það kemur eitthvað úr þvi ákkúrat núna eða í vetur eða jafnvel næsta sumar fer bara eftir þvi hvernig ég er að spila og standa mig persónulega. Ég veit að Suns eru með mikinn áhuga á mer þó stigaskor mitt í sumardeildinni hafi ekki verið afburðar. Þá verður maður líka að átta sig á því hverju lið eru að leita sér að. Það er enginn þarna nema hann sé first round pick að fara labba inn í liðið og eiga það eða fara skora og average einhver 20-30 stig. Öll lið í deildinni eru með þannig leikmenn nú þegar. Maður verður bara koma og sýna maður geti lært, gert litlu hlutina, spila vörn er aðal málið og svo hreyfa boltann og ekki vera að einspila eða ofdrippla boltanum”

Hvað tekur við hjá þér á komandi tímabili?

“Strákurinn heldur nú til Ítalíu að spila fyrir Fortitudo Bologna þar sem ég er með NBA klásúlu í samningnum, ef eitthvað skyldi gerast í vetur, þá er ég allavega með sjéns á því að fylgja því eftir. Þannig það eru bara bjartir og spennandi tímar framundan hjá mér. Verð á flottum stað með góðum og virtum þjalfara. Hann þjálfaði meira að segja nafna minn og geitina sjálfa hjá Róm, þjálfaði hann þar í tvö ár og Jón Arnór hafði ekkert nema gott að segja um hann, þannig ég er spenntur að læra frá honum eins mikið og ég get”