Ísland lagði Danmörku í dag í fjórða leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 58-48. Liðið hefur því það sem af er móti unnið tvo leiki og tapað tveimur.

Gangur leiks

Mikið jafnræði var á með liðunum í upphafi. Danmörk kemst fyrst yfir, en Ísland nær að jafna og komast yfir fyrir lok fyrsta leikhlutans, 11-9. Í öðrum leikhlutanum er eins og botninn detti úr varnaleik Íslands, tapa fjórðungnum með 8 stigum og eru því 6 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 19-25.

Með góðu áhlaupi í upphafi seinni hálfleiksins kemur Ísland muninum niður í 2 stig, 31-33. Á lokamínútum þriðja fjórðungsins láta þær svo kné fylgja kviði og komast yfir, 36-35. Staðan þó nokkuð jöfn fyrir lokaleikhlutann, 39-40 fyrir Danmörku. Með hjálp nokkuð góðrar pressuvarnar sígur Ísland svo framúr í byrjun fjórða leikhlutans og eru 5 stigum yfir þegar að 5 mínútur eru eftir, 47-42. Lokamínútur leiksins klárar Ísland svo vel og sigla að lokum nokkuð öruggum 10 stiga sigur í höfn, 58-48.

Kjarninn

Áræðnin var Íslands megin í dag og að lokum var það hún sem reið baggamuninn. Sterk vörn þeirra í lokaleikhlutanum bjó til algjöran glundroða hjá andstæðingnum og sóknarlega gekk Ísland á lagið. Glæsilegur sigur, annan daginn í röð sem gerir það er verkum að á morgun leikur liðið mögulega um þriðja sæti Norðurlandamótsins.

Tölfræðin lýgur ekki

Ísland stal 20 boltum í leiknum á móti aðeins 9 stolnum Danmerkur. Af töpuðum boltum í heildina skoraði Ísland 30 stig, en Danmörk aðeins 7.

Atkvæðamestar

Jana Falsdóttir var best í liði Íslands í dag með 16 stig, 4 fráköst og 10 stolna bolta. Þá bætti Heiður Karlsdóttir við 11 stigum og 4 fráköstum og Lovísa Sverrisdóttir 9 stigum og 5 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn