Undir 16 ára lið Íslands lagði í kvöld Danmörku í næst síðasta leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio. Liðið hefur því unnið einn leik það sem af er móti og tapað þremur, en lokaleikur þeirra er á morgun gegn Svíþjóð.

Gangur leiks

Íslensku drengirnir komu mun betur inn í leikinn heldur en andstæðingurinn. Leiða eftir fyrsta leikhluta með 7 stigum, 24-17. Í upphafi annars leikhlutans ná þeir svo enn frekar að slíta sig frá Danmörku, komast mest 14 stigum yfir í fjórðungnum. Danirnir vilja hinsvegar ekki gefast upp og koma muninum aftur niður í 6 stig áður en að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-34.

Í upphafi seinni hálfleiksins var Ísland svo áfram með góða stjórn á leiknum. Danirnir voru þó aldrei langt undan. Munurinn 3 stig fyrir lokaleikhlutann, 58-55. Í lokaleikhlutanum heldur Ísland áfram að vera skrefinu á undan. Allt þangað til um 4 mínútur eru eftir af leiknum, þegar að Danmörk nær að jafna leikinn í stöðunni 69-69. Undir lokin er leikurinn svo æsispennandi. Í stöðunni 75-75 með 15 sekúndur eftir skorar Sigurður Rúnar Sigurðsson mikilvæga körfu sem kemur Íslandi tveimur stigum yfir, 77-75. Danir fara yfir og komast á vítalínuna, tvö skot þegar að um 9 sekúndur eru eftir. Brenna af öðru og Sigurður tekur frákastið, 77-76. Ísland nær að halda út og sigrar að lokum með minnsta mun mögulegum, 77-76.

Kjarninn

Drengirnir gerðu vel í dag. Voru áræðnir frá fyrstu mínútu og bognuðu ekki þó Danir kæmu með nokkuð álitleg áhlaup. Pössuðu boltann mun betur en þeir hafa verið að gera í leikjunum hingað til og fengu miklu betra flæði í sóknarleikinn sinn. Má segja að þeir hafi fundið herslumuninn sem vantað hefur í síðustu þremur leikjum. Sem allir töpuðust með frekar litlum mun, gegn Eistlandi með 7 stigum, gegn Finnlandi með 9 stigum og loks í gær gegn Noregi með 2 stigum.

Tölfræðin lýgur ekki

Ísland tapaði aðeins 15 boltum í leik kvöldsins á móti 20 töpuðum boltum Danmerkur.

Atkvæðamestir

Sigurður Rúnar Sigurðsson var bestur í liði Íslands í kvöld, skilaði 15 stigum og 11 fráköstum á 24 mínútum spiluðum. Þá bætti Tómas Valur Þrastarson við 15 stigum og 8 fráköstum og Hilmir Arnarson var með 13 stig og 4 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Myndasafn