Nýliðna helgi lauk keppninni um sterkasta mann Íslands, en lokadagur keppninnar fór fram í Reiðhöllinni í Víðidal á sunnudag. Þetta þætti yfirleitt ekki fréttnæmt á vefsíðu sem fjallar um körfuknattleik, nema fyrir þær sakir að sigurvegari mótsins var enginn annar en Stefán Karel Torfason, fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta.

Stefán lék með Snæfelli við góðan orðstír frá 2011-2016, en þurfti að hætta körfuknattleiksiðkun skömmu eftir að hafa samið við ÍR haustið 2016, eftir ítrekuð höfuðhögg í íþróttinni. Brotthvarf Stefáns úr íþróttinni var sorglegt, enda var hann einungis 22 ára gamall og hafði þegar leikið fimm landsleiki fyrir Íslands hönd.

Eftir að körfuboltaskórnir fóru á hilluna sneri Stefán sér að kraftlyftingum, með augljósum árangri, enda er hann nýkrýndur sterkasti maður landsins um fimm árum síðar. Kraftlyftingahæfnina á Stefán ekki langt að sækja, enda er faðir hans Torfi Ólafsson, sem tók fimm sinnum þátt í keppninni um sterkasta mann heims á tíunda áratugnum og varð m.a. fjórði árið 1997.

Með sigrinum aflaði Stefán sér þátttökurétt á World’s ultimate strongman mótinu, sem fer fram í Jacksonville í Florida í september næstkomandi.

Karfan óskar Stefáni til hamingju með titilinn.