Ísland tapaði í kvöld öðrum leik sínum á Norðurlandamóti þessa árs í Kisakallio fyrir heimamönnum í Finnlandi, 67-76.

Gangur leiks

Ísland byrjaði leik dagsins ágætlega. Liðin skiptust á forystunni í nokkur skipti á þessum upphafsmínútum, en þegar að sá fyrsti var á enda var Ísland 3 stigum yfir, 19-16. Í öðrum leikhlutanum ggera þeir svo vel í að slíta sig aðeins frá heimamönnum, ná þegar mest lætur 9 stiga forystu. Undir lok hálfleiksins var þó eins og botninn hafi dottið úr leik þeirra og Finnland nær að jafna, staðan 37-37 þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Íslenska liðið byrjar seinni hálfleikinn svo frekar illa. Tapa fyrstu þremur mínútum þriðja leikhlutans 3-10 og eru því 7 stigum undir, 40-47. Þá forystu heldur Finnland í út fjórðunginn, 50-58 fyrir lokaleikhlutann. Í fjórða leikhlutanum gera þeir heiðarlega atlögu að forystu heimamanna og ekki má miklu muna að þeir nái að gera þetta að leik. Allt kemur fyrir ekki, Finnland sigrar að lokum með 9 stigum, 67-76.

Kjarninn

Með smá lukku hefði Ísland vel geta unnið þennan leik í dag, líkt og gegn Eistlandi í gær. Sama vandamál til staðar og í leik gærdagsins, þeir passa boltann ekki nógu vel. Ekki alslæmt þó, ekkert frekar en í gær. Spila oftast fína vörn á hálfum velli, skjóta boltanum vel úr djúpinu og fá gott framlag frá bekknum. Sigurinn er á næsta leiti.

Tölfræðin lýgur ekki

Líkt og í gær tapaði Ísland alltof mörgum boltum, 31, á móti aðeins 24 töpuðum hjá Finnlandi. Af þessum 31 tapaða bolta skoraði Finnland 29 stig á móti aðeins 19 stigum sem Ísland setti af töpuðum boltum Finnlands.

Atkvæðamestir

Brynjar Kári Gunnarsson var atkvæðamestur fyrir Ísland í dag með 22 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Þá skilaði Tómas Valur Þrastarson 12 stigum og 11 fráköstum og Sigurður Rúnar Sigurðsson 7 stigum og 4 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn