Mánudaginn 23. ágúst og miðvikudaginn 25. ágúst fer fram net-dómaranámskeið. Athugið að þetta er eitt námskeið sem haldið er á tveimur kvöldum. Áætlað er að námskeiðið standi frá 18:00-22:00 hvorn daginn.

Þátttakendur taka þátt í fjarnámi á netinu og verður farið yfir kennsluefni leiðbeinanda ásamt því sem þátttakendur leysa verkefni saman í hóp. Mikilvægt er að þátttakendur hafi tölvu með vefmyndavél og nettengingu til að taka þátt.

Á námskeiðinu verður farið yfir öll grunnatriðin í dómgæslu svo sem reglur og staðsetningar og hljóta þeir sem standast námskeiðið réttindi til þess að dæma hjá öllum yngri flokkum. Þar með talið í drengja-, stúlkna- og unglingaflokkum og í neðri deildum meistaraflokka (að 1. deildum undanskildum). Þá geta áhugasamir farið á niðurröðun dómaranefndar í leikjum á vegum KKÍ óski þeir þess. Allir þátttakendur sem ljúka námskeiðinu fá FOX40 dómaraflautu.

KKÍ hvetur þau félög sem hyggjast sækja um undanþágu frá niðurröðun dómaranefndar á leiki sína að senda sína félagsdómara á námskeiðið, en undanþága verður aðeins veitt þeim félögum sem geta útvegað dómara sem hafa farið á dómaranámskeið.

Skráning er hafin hér og er þátttaka öllum að kostnaðarlausu.