Berglind Láru og Gunnarsdóttir hefur samið við Íslandsmeistara Vals um að koma inn í þjálfarateymi þeirra í úrvalsdeild kvenna. Mun hún þar vera aðstoðarþjálfari Ólafs Jónasar Sigurðssonar. Berglindi þarf vart að kynna fyrir íslenskum körfuknattleikaðdáendum, en hún lék bæði með sigursælu liði Snæfells á öðrum áratug þessarar aldar, sem og 26 landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 2015-19. Þá hefur hún síðan hún hætti starfað sem sérfræðingur um deildina hjá Stöð 2 Sport.

Tilkynning:

Þjálfarateymi deildar- og Íslandsmeistara Vals á komandi tímabili skipa þau Ólafur Jónas Sigurðsson aðalþjálfari og Berglind Láru Gunnarsdóttir. Ólafur Jónas náði frábærum árangri með liðið á sínu fyrsta tímabili og var valinn þjálfari ársins á lokahófi KKÍ. Berglind er körfuboltaáhugamönnum að góðu kunn bæði sem leikmaður með félagsliði sínu Snæfelli og íslenska landsliðinu. Hún stígur nú sín fyrstu skref sem þjálfari meistaraflokks. Við bjóðum Berglindi hjartanlega velkomna á Hlíðarenda!