Bandaríkin unnu Frakkland í nótt í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Tókýó, 87-82. Var þetta sextánda Ólympíugull Bandaríkjanna í heildina, en það fjórða í röð. Síðasta lið til að vinna gullið annað en Bandaríkin var Argentína sem gerði það á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur næturinnar nokkuð spennandi í lokin, þrátt fyrir að Bandaríkin hefðu ávalt verið skrefinu á undan. Bandaríkin höfðu leitt með 14 stigum þegar að mest lét seint í þriðja leikhlutanum, en Frakkland komið til baka í þeim fjórða. Minnstur var munurinn 3 stig undir lokin, 85-82, en Frakklandi tókst ekki að komast lengra en það.

Atkvæðamestur í liði Bandaríkjanna í nótt var Kevin Durant með 29 stig og 6 fráköst. Fyrir Frakkland var það Nando De Colo sem dró vagninn með 12 stigum, 5 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Tölfræði leiks