Þór Akureyri hafa á nýjan leik samið við hinn tvítuga Baldur Örn Jóhannesson fyrir komandi átök í Úrvalsdeild karla. Baldur Örn kemur til liðsins frá Njarðvík, en þar áður hafði hann leikið upp alla yngri flokka og með meistarflokk Þórs Akureyri. Þá hefur Baldur Örn einnig verið hluti af yngri landsliðum Íslands.

Tilkynning:

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur borist góður liðsstyrkur þar sem framherjinn sterki Baldur Örn Jóhannesson er komin heim á eftir eins árs veru í herbúðum Njarðvíkur.

Baldur Örn er okkur Þórsurum vel kunnur en kappinn er uppalinn hjá félaginu og hefur unnið til fjölmargra titla með yngri flokkum en hann er í hinum sigursæla 2001 árgangi. Titlarnir í yngri flokkum eru margir og m.a. var hann valinn mikilvægasti leikmaðurinn (MVP) þegar Þór sigraði Scania Cup (óopinberir Norðurlandameistarar) vorið 2017.
Baldur Örn á 16 landsleiki að baki með U15 og U16.

Baldur Örn er kraftmikill, stór og sterkur og eins og Lárus Jónsson fyrrum þjálfari Þórs sagði eftir sigur okkar manna í Þorlákshöfn í desember 2019 “hans hlutverk í liðinu er að vera orkuboltinn. Hann kemur inn á og gefur liðinu vítamin bæði í vörn og sókn” og undir þetta tekur Bjarki Ármann þjálfari.

Baldur Örn lék síðast með Þór veturinn 2019-2020 og kom hann við sögu í 21 leik og skoraði hann þá 1.9 stig að meðaltali í leik, tók 3 fráköst og var með 0.4 stoðsendingar. Spilatími Baldurs var 13:3 mínútur að meðaltali í leik.