Vestri mun leika á ný í efstu deild karla á næstu leiktíð eftir nokkra ára fjarveru. Liðið sigraði úrslitakeppni 1. deildar karla á síðustu leiktíð og tryggði þar með sæti sitt.

Þjálfari liðsins var Pétur Már Sigurðsson sem nú hefur verið tilkynnt um að stýri liðinu áfram en samningur hans við Vestra lauk í sumar. Pétur mun áfram stýra meistaraflokki karla og kvenna hjá Vestra. Pétur hefur nú mikla reynslu sem þjálfari en hann þjálfaði áður KFÍ au þess að þjálfa Stjörnuna í Dominos deild kvenna.

Spennandi verður að sjá hvernig liði Ísfirðinga mun vegna í efstu deild en fyrir stuttu var tilkynnt að tvíburarnir uppöldu, þeir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir muni snúa heim og leika með liðinu.

TIlkynningu Vestra má finna hér að neðan:

Skömmu eftir að Vestri tryggði sér sæti í úrvalsdeild í síðasta mánuði komust Körfuknttleiksdeild Vestra og Pétur Már Sigurðsson að samkomulagi um að hann verði áfram í herbúðum Vestra. Pétur Már mun þjálfa meistaraflokk karla í úrvalsdeildinni og áfram sinna þjálfun meistaraflokks kvenna. Unnið er að því að finna hæfan þjálfara með honum í þetta viðamikla verkefni og verður nánar tilkynnt um það von bráðar.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra lýsir yfir mikilli ánægju með áframhaldandi samstarf við Pétur Má. Árangur meistaraflokks karla á síðasta tímabili var framúrskarandi og er Pétur án vafa rétti maðurinn til að halda áfram með það krefjandi verkefni sem framundan er. Pétur hefur lagt mikinn metnað og alúð í uppbyggingu meistaraflokks kvenna sem steig sín fyrstu skref á síðasta tímabili undir merkjum Vestra. Áframhaldandi aðkoma Péturs að því verkefni er mikilsverð til að tryggja stöðugleika í uppbyggingunni.