Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.

 • Kvennalið Hauka er sagt vera að skoða það að senda liðið í Evrópukeppni á næsta tímabili, en þær enduðu í öðru sæti á síðasta tímabili, bæði í deild og eftir úrslitakeppni.
 • Sagt er að Haiden Denise Palmer sé við það að semja við Hauka, en hún lék síðast með Snæfell í úrvalsdeildinni þar sem hún skilaði 22 stigum og 8 stoðsendingum að meðaltali í leik.
 • Sagt er að leikmenn Skallagríms, Sigrún Björg Ámundadóttir og Embla Kristínardóttir hafi báðar rætt við önnur lið í kjölfar þess að Guðrún Ósk Ámundadóttir hætti að þjálfa liðið. Setur að sjálfsögðu ákveðin spurningamerki við það hvort að Skallagrímur verði með lið á næsta tímabili í úrvalsdeild kvenna, en samkvæmt orðinu á götunni verða þær með, þó svo að þetta sé á undan gengið og erfiðlega reynist að finna þjálfara.
 • Eftir að hafa verið sterklega orðaður við bæði Njarðvík og Keflavík er KR-ingurinn Brynjar Þór Björnsson nú sagður vilja vera í höfuðborginni á næsta tímabili og er ÍR nú sagt koma til greina.
 • ÍR-ingar eru einnig sagðir á höttunum eftir leikmanni Þórs Akureyri Srdan Stojanovic.
 • Eftir að Darri Freyr Atlason sagði starfi sínu lausu á dögunum hefur KR ekki kynnt nýjan þjálfara. Upphaflega var haldið að Helgi Már Magnússon, leikmaður liðsins, væri þeirra næsti þjálfari, en það hefur ekki verið staðfest.
 • Sagt er að ef Helgi Már taki við liðinu, þá muni Jakob Örn Sigurðarson, sem setti skóna á hilluna eftir síðasta tímabil, taka eitt tímabil í viðbót.
 • Heyrst hefur að Hannes Ingi Másson leikmaður Tindastóls muni söðla um og ganga til liðs við Hött í fyrstu deildinni.
 • Leikmaður nýkrýndra Íslandsmeistara Þórs, Larry Thomas, er sagður vera að skoða í kringum sig eftir frábært tímabil og úrslitakeppni. Orðið á götunni er að ansi líklegt hann verði áfram í Þór, þar sem hann er með samning út næsta tímabil, en lið Vals hefur einnig verið nefnt, þá líklega myndu þeir þurfa að borga fyrir leikmanninn.
 • Þá er einnig sagt að annar leikmaður meistaranna Callum Lawson muni líta út fyrir landsteianana að næsta liði sínu, en gangi það ekki muni hann semja við Þór á nýjan leik.
 • Heyrst hefur að Jón Arnór Stefánsson, sem lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil, muni taka að sér aðstoðarþjálfarahlutverk með Finn Frey Stefánssyni hjá Val á næsta tímabili.
 • Þá er leikmaður KR Björn Kristjánsson einnig sagður á leiðinni í Val.
 • Leikmaður Keflavíkur Dean Williams er sagður vera að skoða í kringum sig. Eftir gott tímabil með Keflavík og verðlaun fyrir besta erlenda leikmann hafa lið utan Íslands áhuga á að fá hann í sínar raðir. Dean er þó samkvæmt fréttum frá því í maí með samning við Keflavík út næsta tímabil.
 • Tindastóll eru sagðir vera á eftir bakverði Valencia Hilmari Smára Henningssyni, sem átti frábært tímabil með ungmennaliði félagsins í EBA deildinni á Spáni.
 • Orðið á götunni er að Sóllilja Bjarnadóttir verði mögulega ekki með Breiðablik í úrvalsdeild kvenna á næsta tímabili þar sem hún sé á leiðinni frá íslandi.
 • Tvíburarnir Hilmar og Hugi Hallgrímssynir eru sagðir munu taka slaginn með uppeldisfélagi sínu Vestra sem tryggði sér sæti í úrvalsdeild á nýafstöðnu tímabili. Munu tvíburarnir koma til liðsins frá Stjörnunni, þar sem þeir þó voru einnig á venslasamning hjá Vestra á síðasta tímabili.
 • Annar leikmaður Stjörnunnar, Dúi Þór Jónsson, er sagður muni fylgja tvíburunum og taka slaginn með nýliðum Vestra í Úrvalsdeildinni.
 • Þá eru Vestramenn einnig sagði hafa verið í sambandi við Dino Stipcic leikmann fallliðs Hattar um að leika með liðinu í úrvalsdeildinni.

Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á karfan@karfan.is