Nígería lagði Bandaríkin í nótt í vináttuleik í Michelob ULTRA höllinni í Las Vegas, 90-87, en bæði lið vinna að undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó sem settir verða 23. júlí.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikurinn nokkuð spennandi undir lokin. Eftir leikhlé með 13 sekúndur á klukkunni fengu Bandaríkin færi til að jafna leikinn. Þeir náðu þó ekki skoti og brotið var á Zach Lavine þegar 3 sekúndur voru eftir. Hann brenndi af báðum vítunum og Nígería náði að sigla sigrinum í höfn.

Atkvæðamestur fyrir Nígeríu í leiknum var bakvörður Miami Heat í NBA deildinni Gabe Vincent með 21 stig, en hann setti niður 6 af 8 fyrir utan þriggja stiga línuna. Fyrir heimamenn var það leikmaður Brooklyn Nets Kevin Durant sem dró vagninn með 17 stigum.

Úrslit næturinnar nokkuð ólík síðustu tveimur viðureignum liðanna. Í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana 2016 unnu Bandaríkin með 44 stigum, 110-66 og á Ólympíuleikunum 2012 unnu þeir með 83 stigum, 156-73.