Haukar hafa samið við Haiden Denise Palmer um að leika með félaginu í Úrvalsdeild kvenna á næstu leiktíð.

Haiden á að baki tvö tímabil á Íslandi með Snæfell og varð hún Íslands- og bikarmeistari með félaginu tímabilið 2015-2016 ásamt því að vera valin besti erlendi leikmaðurinn, leikmaður bikarúrslitanna og leikmaður úrslitakeppninnar.

Hún gekk aftur til liðs við Snæfell á síðasta tímabili og leiddi Úrvalsdeildina í stoðsendingum með 7,9 í leik, ásamt því að skora 21,7 stig og taka 11,9 fráköst að meðaltali í leik.

Auk Íslands hefur hún leikið í Púertó Ríkó, Ísrael, Þýskalandi og Finnlandi, en hún varð þýskur bikarmeistari með TSV 1880 Wasserburg árið 2018.