Emelía Ósk Gunnarsdóttir mun ekki leika með Keflavík á næsta tímabili. Staðfesti leikmaðurinn þetta við Körfuna fyrr í dag.

Samkvæmt Emelíu mun hún vera á leiðinni til Svíþjóðar í nám, hana langi að geta spilað með, en þau mál séu ekki komin á hreint ennþá og því ekki víst með hvort og hvaða lið það yrði ytra.

Þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gömul þá hefur Emelía leikið í þónokkur ár fyrir lið Keflavíkur í úrvalsdeildinni, en fyrsti leikur hennar með meistaraflokk var árið 2014. Með liðinu hefur hún unnið bæði bikar og Íslandsmeistaratitil, sem og hefur hún verið hluti af íslenska landsliðinu.

Í 23 leikjum með Keflavík á síðasta tímabili skilaði hún 9 stigum, 4 fráköstum, 2 stoðsendingum og stolnum bolta að meðaltali í leik.