Landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson er samkvæmt heimildum Körfunnar búinn að semja við Telenet Giants í Belgíu fyrir næsta tímabil. Kemur hann þangað frá Siauliai í LKL deildinni í Litháen, en hann var á síðasta tímabili valinn besti leikmaður deildarinnar þar með 15 stig, 3 fráköst og 8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Giants eru staðsettir í Antwerp og leika í GNXT deildinni í Belgíu, sem og í EuroCup. Á síðasta tímabili enduðu þeir í þriðja sæti belgísku deildarinnar og komust í undanúrslit úrslitakeppninnar. Árin tvö þar á undan vann liðið belgíska bikarmeistaratitilinn.

Áður hefur Elvar Már leikið fyrir Boras í Svíþjóð, Denain í Frakklandi og uppeldisfélag sitt Njarðvík á Íslandi.